Studia Islandica - 01.06.1963, Side 16
14
sem virðist hafa tíðkazt á Norðurlöndum á víkingaöld: að
höfðingjar skutu spjóti sínu yfir lið óvinanna í byrjun
orustu og gáfu þá Óðni.
Flestir munu sammála um, að með nöfnunum Merkúr-
íus og Mars sé átt við Óðin og Tý, enda virðast þeir vera
nefndir svo í fleiri latneskum ritum og áletrunum á fyrstu
öldum eftir Krists burð. Þessi samsvörun kemur einnig
fyrir í nöfnum þriðjudags og miðvikudags, sem á latínu
heita dies Martis og dies Mercurii, en Germanar þýddu
með orðunum Týsdagur og Óðinsdagur.1 Miklu vafasam-
ara er, við hvaða guð er átt með nafninu Herkúles. En ef
dæmt er eftir yngri heimildum um höfuðguði Germana,
er líklegast, að átt sé við Þór. Þá skoðun aðhyllast líka
flestir fræðimenn, þó ekki allir.
Eina goðið, sem Tacitus nefnir með germönsku nafni,
er gyðjan Nerþus. Helgidómur hennar stóð á ey einni í
úthafi, en hún var tignuð af sjö þjóðflokkum á megin-
landinu, sem næstir bjuggu hafinu. Hyggja flestir, að
þessir þjóðflokkar hafi verið á Jótlandi, enda er einn
þeirra nefndur Eudoses. Nerþus er sama nafnið og Njörð-
ur, og er þetta elzta frásögn, sem nefnir norrænt goð. En
áður en sögunni víkur til Norðurlanda, skulu leidd fram
nokkur vitni um goðatrú Suður-Germana.
Eins og áður getur, er dýrkun Merkúríusar nefnd á
mörgum latneskum áletrunum í Þýzkalandi á fyrstu öld-
um eftir Krists burð. Á sumum þeirra að minnsta kosti
er greinilegt, að átt er við Óðin. Það er og beinlínis tekið
fram í tveimur sagnaritum, að það sé sami guðinn, sem
Rómverjar kalla Merkúríus og Germanar Óðin.2 Og í
öðru ritinu er þess getið um leið, að Óðinn hafi verið tign-
aður af öllum þjóðflokkum í Germaníu (Þýzkalandi).
1 Fornháþýzka orðmyndin ziostag og miðlágþýzka orðmyndin
wodensdach sýna ljóslega, að Suður-Germanar hafa tekið upp þessi
dagaheiti (sjá Alexander Jóhannesson: Islándisches Etymologisches
Wörterbuch).
2 Jonas Segusiensis: Vita Columbani, sjá Clemen, bls. 32. Paulus
Diaconus: Historia Langobardorum, sjá Clemen, bls. 49.