Studia Islandica - 01.06.1963, Page 22

Studia Islandica - 01.06.1963, Page 22
20 þik at bræðr þínum stóðu blíð regin. Allt ber því að sama brunni um það, að meðal Vana- dýrkenda hafi gyðjan og maki hennar verið talin systkin og borið svipuð nöfn. Þau hafa verið blótuð saman til efl- ingar frjósemi líkt og hin austrænu árgoð, sem ýmist voru talin systkin eða mæðgin. Og eins og aðrar þjóðir hafa Germanar í upphafi haft mesta helgi á gyðjunni. Þess vegna er nafn hennar einnar varðveitt í bók Tacitusar. Þá liggur næst að bera frásögn Tacitusar um Nerþus saman við yngri heimildir um dýrkun Vana á Norður- löndum. f Ynglingasögu lýsir Snorri goðunum eins og jarðneskum konungum, er verið hafa uppi fyrir löngu. Þegar hann hefur sagt frá ríki Óðins, heldur hann áfram: „Njörður af Nóatúnum gerðist þá valdsmaður yfir Sví- um og hélt upp blótum. Hann kölluðu Svíar þá dróttin sinn. Tók hann þá skattgjafar af þeim. Á hans dögum var friður allgóður og alls konar ár svo mikið, að Sviar trúðu því, að Njörður réði fyrir ári og fyrir fésælu manna.“ 1 Það leynir sér ekki, að hér er verið að lýsa guði ársæld- ar og frjósemi. Hið sama má sjá af frásögn Gylfaginn- ingar, þótt meira beri þar á öðrum þætti í eðli hans: „Inn þriðji Ás er sá, er kallaður er Njörður; hann býr á himni, þar sem heitir Nóatún; hann ræður fyrir göngu vinds og stillir sjá og eld; á hann skal heita til sæfara og til veiða; hann er svo auðugur og fésæll, að hann má gefa þeim auð landa eða lausafjár; á hann skal til þess heita.“ 2 Hér sjást greinilega merki um breytingu á dýrkun Njarðar. Hið forna árgoð, sem við þekkjum frá Tacitusi, færist smám saman í það horf að verða siglingagoð. En Freyr og Freyja setjast í hið forna sæti föður síns og eru mest blótuð til ársældar á síðustu öldum heiðni. Þessu lýsir Snorri á táknrænan hátt, er hann segir: Freyr tók þá við ríki eftir Njörð. 1 Heimskringla, Yngl.s., 9. kap. 2 Snorra-Edda, Gylfaginning, 22. kap.

x

Studia Islandica

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Studia Islandica
https://timarit.is/publication/1542

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.