Studia Islandica - 01.06.1963, Side 37
35
með hvaða hætti Dómalda var blótað. 1 Ynglingatali segir:
Ok landherr
af lífs vönum
dreyrug vápn
Dómalda bar.
En samkvæmt Historia Norvegiæ var Dómaldi hengdur.
Hugsanlegt er þó, að báðar sagnirnar geymi minningar
um blótsið, sem bæði hafi falið í sér hengingu og aftöku
með vopnum. Slík blót tíðkuðust í Uppsölum á dögum
Adams frá Brimum, og ekkert mælir gegn því, að þau eigi
sér fornar rætur.
Sögnina um hengingu Dómalda ber Folke Ström saman
við frásögn um dauða Agna konungs í Ynglingatali:
Þat telk undr,
ef Agna her
Skjalfar ráð
at sköpum þóttu,
þás gæðing
með gullmeni
Loga dís
at lopti hóf.
Vísa þessi er að ýmsu leyti torskilin, en samt virðist
ljóst, að Agni konungur hefur verið hengdur í gullmeni
að ráðum Skjálfar, sem Snorri segir, að verið hafi eigin-
kona hans.1 Varla þarf að efa, að Skjálf og Logadís er
hin sama, enda hefur Snorri litið svo á, og sá skilningur
kemur líka bezt heim við Historia Norvegiæ: „Istum uxor
sua juxta locum Agnafit, qui nunc Stokholmr dicitur,
propriis manibus interfecit suspendendo ad arborem cum
catena aurea.“ Þ. e.: Eiginkona hans drap hann með eigin
hendi á Agnafit, sem nú heitir Stokkhólmur, með því að
hengja hann á tré með gullmeni. Ef það er rétt, að henging
hafi verið liður í dísablótum konunga í Uppsölum, er
freistandi að bera þau saman við blót Artemisar hinnar
grísku. En hún var tignuð á þann hátt, að mynd hennar
sjálfrar eða blótdýr henni helgað var hengt upp á tré.2
1 Heimskringla, Yngl.s., 19. kap.
2 Sjá Frazer IV, 1, bls. 291—92.