Þjóðmál - 01.03.2018, Page 43
ÞJÓÐMÁL Vor 2018 41
Hvítir karlmenn telja
sig hafa orðið undir
Við víkjum talinu aftur að kosninga baráttunni.
Palmer segir að þetta hafi verið í fyrsta sinn
í forsetakosningum vestanhafs sem báðir
flokkar buðu fram einstaklinga sem stórum
hluta landsmanna líki illa við.
„Þau eru bæði fráhrindandi einstaklingar á
sinn hátt,“ segir Palmer.
„Hillary Clinton er spillt og fólk skildi það.
Þó svo að hún neiti því er alveg ljóst að
hún naut góðs af þeim styrkjum sem komu
í gegnum velgjörðarsjóð þeirra hjóna frá
erlendum ríkjum og fyrirtækjum. Daginn eftir
að hún tapaði kosningunum stoppuðu öll
framlög þessara aðila í sjóðinn og þeir sem
höfðu skuldbundið sig til að leggja fjármagn
í sjóðinn hættu við. Það ætti að segja
okkur eitthvað. Þau hafa neitað því að hafa
persónulega notið góðs af rekstri sjóðsins
en sjóðurinn greiddi fyrir öll ferðalög þeirra
hjóna og dóttur þeirra, þar sem flogið var um
á einkaþotum, dvalið á lúxushótelum o.s.frv.“
Hvað Trump varðar segir Palmer að margir
stuðningsmanna hans myndu fylgja
honum fram af bjargbrún enda hafi hann
sinnt þeim hópi mjög vel, bæði á meðan á
kosningabaráttunni stóð og á því rúma ári
sem liðið er frá því að hann sór embættiseið.
„Hann hefur sjálfur sagt opinberlega, þannig
að þetta er ekki bara dómharka í mér, að
hann gæti gengið út á götu og skotið mann
– en þessir stuðningsmenn hans myndu samt
styðja hann,“ segir Palmer.
„Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að
þetta eru að mestu leyti ómenntaðir hvítir
karlmenn. Og þetta er vandamál. Við sem
aðhyllumst frjálslyndi rekumst hér á vegg og
við vitum ekki almennilega hvernig best er
að svara þessu. Þessir einstaklingar telja að
þeir hafi verið sviptir einhverjum réttindum,
að þeir séu fórnarlömb aðstæðna, t.d.
alþjóðaviðskipta, og eru þess vegna reiðir.“
Palmer segir að frjálslyndir menn hafi í
yfir 200 ár lagt upp með þá kenningu að
velgengni eins sé ekki á kostnað annars;
þó svo að einum gangi vel séu tækifæri til
staðar fyrir aðra að ganga vel líka. Aðrar
stjórnmálaskoðanir, t.d. sósíalismi, gangi út á
það að velgengni eins sé á kostnað annars og
því þurfi að taka af þeim sem hafi gengið vel.
„En maðurinn er þannig gerður að hann er
sífellt að meta stöðu sína í þjóðfélaginu,“
segir Palmer.
„Hver er bestur í íþróttum, hver á hvað og
svo framvegis. Á síðustu áratugum hefur
þjóðfélagsstaða fjölmargra hópa stórbatnað.
Konur komu inn á vinnumarkaðinn, þær
stjórna nú stórfyrirtækjum, ná langt í stjórn-
málum o.s.frv. Blökkumenn hafa einnig náð
árangri, þeir eru að mennta sig, ná langt og
við vorum með blökkumann sem forseta. Það
mætti halda langa svona tölu, inn flytjendur,
samkynhneigðir og alls konar minnihluta-
hópar hafa risið upp og öðlast betri
þjóðfélagsstöðu en áður var. Og jafnvel þó
svo að þeir hafi ekki risið á kostnað annarra
telja margir nú að svo sé og það viðhorf er
nokkuð nýtilkomið. Til að teikna þetta upp
myndrænt getum við tekið 100 manns úr
ýmsum þjóðfélagshópum og stillt þeim upp
í stiga. Það er alveg ljóst að fulltrúar minni-
hlutahópa hafa komist ofar í stigann. En þá
spyrjum við okkur, hverjir hafa þurft að færa
sig neðar? Svarið við því er; ómenntaðir hvítir
karlmenn. Þeir hvítu menn sem hafa menn-
tun hafa ekki undan neinu að kvarta en þeir
sem ekki hafa sótt sér menntun telja að þeir
hafi orðið eftir í lífsgæðakapphlaupinu og
verða við það reiðir. Menn átta sig ekki á því
að margir geta staðið saman í hverri tröppu.“