Saga - 2012, Blaðsíða 163
innar. Höfuðáhersla er svo lögð á skrif þriggja fræðimanna, þeirra Ágústar
H. Bjarnasonar, Guðmundar Finnbogasonar og Sigurðar Nordals, sem
fjölluðu allir í verkum sínum um tengsl lista og samfélags. Við kynnumst
þeim Ágústi, Guðmundi og Sigurði hér að nokkru leyti á nýjan hátt þar sem
hugmyndir þeirra eru settar í víðtækt samband við menningarumræðuna á
Íslandi á þriðja áratugnum. Einnig er hugað að skrifum fjórða háskóla-
mannsins, Alexanders Jóhannessonar, sem og málflutningi ýmissa íslenskra
boðbera nútímahyggju í listum og alþjóðahyggju í stjórnmálum, svo sem
Halldórs Laxness og Magnúsar Á. Árnasonar. Jón Karl Helgason ætlar hér á
eftir að fara nánar í saumana á skrifum þessara menntamanna og túlkun
Ólafs á þeim, en ég læt mér nægja að segja að greining hans er almennt
sannfærandi; hann er nærgætinn í umfjöllun sinni um hugmyndir mennta-
mannanna um leið og hann forðast einfeldningslegar túlkanir á íhaldssemi
þeirra; hann hafnar markhyggju og setur skoðanir þeirra um menningar-
vakningu þjóðarinnar í samhengi við fjölbreytilega samtíð og ómótaða
framtíð þeirra.
Í síðari hluta verksins, sem nefnist „Praktík“, er kannað með hvaða hætti
íslensk menningarpólitík mótaðist í verki á öðrum og þriðja áratugnum. Við
sjáum hvernig málefni listsköpunar verða smám saman að mikilvægu við -
fangsefni íslensks ríkisvalds og frjálsra félagasamtaka, og hér eru meðal ann-
ars tekin dæmi af stofnun opinbers málverkasafns (sem síðar fékk nafnið
Listasafn Íslands) á síðari hluta nítjándu aldar, sem og af starfsemi List -
vinafélags Íslands á öðrum áratug þeirrar tuttugustu. Þá er farið vel yfir stofn-
un Menningarsjóðs og síðar menntamálaráðs, áform um uppbyggingu há -
borgar á Skólavörðuholtinu og loks skipulagningu Alþingis hátíðarinnar 1930.
Ritgerðin er mjög læsileg; bæði er efnisvalið gott og Ólafur skrifar
skemmtilegan stíl — það er ekki laust við að ákveðin kímni skíni á stund-
um í gegn. Svo var málum ekki endilega háttað á þriðja áratug aldarinnar.
Í umsögn um áðurnefnda samkeppni skrifaði Sveinn Sigurðsson til að
mynda:
Þótt svörin séu margvísleg bæði að efni og framsetningu og misjöfn að
gæðum, bera þau öll undantekningarlaust einkenni þess, að leitast hef-
ur verið við að svara af alvöru og einlægni og benda á það eitt, sem
máli skiftir. Kýmni bregður varla fyrir í nokkru svari, og er það eftir-
tektarvert. Þegar erlend blöð eða tímarit efla til líkrar samkepni og hér
er um að ræða, fer sjaldan hjá því, að allmjög gæti kýmni í sumum
svörunum, enda er sú leiðin fjarri því að vera ólíkleg til verðlauna, ef
vel er komist að orði. En svo virðist sem vér séum síður fallnir til þess að
gera að gamni voru en flestar aðrar þjóðir, eða vér beitum ekki fyndni
vorri jafn örlátlega eins og aðrir.5
andmæli 161
5 Ritstj., „Samkepnin“, Eimreiðin 24 (1924), bls. 180.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 161