Saga - 2012, Síða 192
ar um hann koma fram í nokkrum aftanmálsgreinum. Sumt af því sem þar
stendur birtist þó einnig í meginmáli og því um óþarfa endurtekningar að
ræða. Þá virðist höfundur mannanafnaskrár aftast í bókinni ekki hafa áttað
sig á því að Ib Árnason Riis og njósnarinn Edda eru einn og sami maðurinn.
Meðferð heimilda er reyndar umhugsunarefni. Beinar tilvitnanir eru
aldrei inndregnar heldur skáletraðar og innan gæsalappa. Þannig eru stórir
hlutar sumra kaflanna skáletraðir því að auk tilvitnananna eru öll skipanöfn
skáletruð, nöfn hernaðaráætlana sömuleiðis, dulnefni og erlend nöfn stofn-
ana á borð við leyniþjónustur og kannski fleira. Í heimildaskrá er sérkenni-
legt að sjá útgefin skjalasöfn og uppflettirit á borð við Fuehrer Conferences on
Naval Affairs 1939–1945 og Jane’s Fighting Ships of World War II eignuð höf-
undinum Anonymous í stað þess að skrá þau undir titli. Hið sama á við um
fjölmargar greinar í blöðum og tímaritum sem birst hafa án þess að höf-
undar sé getið. Ekki er alltaf samræmi á milli tilvísunar og skrásetningar
heimildar, svo sem á bls. 292 þar sem höfundur vitnar í viðtal með tilvísun-
inni „Guðbjörn Guðjónsson, viðtal við höfund nóvember 1996“. Í heimilda-
skrá heitir þessi heimild hins vegar: „Magnús Þór Hafsteinsson. Mannskæð -
asta skipalest stríðsáranna: Dauðalestin PQ17. Viðtal við Guðbjörn Guðjónsson.
Fiskifréttir, 48. tbl., 14. árgangur, 1996.“ Í aftanmálsgrein 399 er vísað í net-
heimild sem virðist hafa gleymst að setja í heimildaskrá. Ekkert af þessu er
nein dauðasök en hæfir sannarlega ekki í riti sem á að taka alvarlega sem
fræðirit. Þá er ótalið að í bókinni er slíkur urmull af innsláttarvillum, innra
ósamræmi og jafnvel málvillum að það er beinlínis vandræðalegt: „ …
þegar hér var komið til sögu …“ (aftanmálsgrein 87), „Churchill átti þó spil
uppi í erminni …“ (bls. 60), „… reynslan skapaði meistarana“ (bls. 400),
ýmist er talað um njósnaflug eða njósnarflug, orð vantar iðulega í setning-
ar. Meðferð töluorða er handahófskennd, sbr. „Færeysku skipi með 8 manna
áhöfn …“ (bls. 402), „Í lok júlí hafði fimm kafbátum …“ (bls. 403), „21 fór-
ust“ (bls. 411). Það er óþarfi að halda áfram, slæmt er að almennur lesandi
reki augun í þetta en prófarkalesari ekki. Kápa bókarinnar er í góðu sam-
ræmi við verkið, í stað þess að draga fram meginstef er reynt að segja allt
með því að hafa ljósmynd úr stríðinu, myndir af Churchill, Roosevelt, Hitler
og Stalín og loks titil bókarinnar og nafn höfundar í íslensku fánalitunum.
Að öllu samanlögðu situr eftir sú tilfinning að það sé synd að ráðist hafi
verið í svo áhugavert stórvirki sem ritun Dauðans í Dumbshafi án þess að
vanda betur til verka. Bókin hefði átt að vera mikilvægt framlag til ritunar
hernaðarsögu Norður-Atlantshafsins en það er hún ekki, nema þá sem
heimildasafn. Með góðri ritstjórn hefði mátt gera framsetningu efnisins
hnitmiðaðri, draga úr óþarfa endurtekningum og stytta verkið. Þegar les-
endur þurfa að fletta fram og til baka á milli meginmáls, aftanmálsgreina og
nafnaskráa áður en þeir neyðast til að gefast upp við að fá heildarmynd af
ákveðnum skipalestum er notagildi verksins farið fyrir lítið.
Súsanna Margrét Gestsdóttir
ritdómar190
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 190