Saga - 2015, Qupperneq 53
ankorítar og hermítar á íslandi 51
þrjátíu árum eftir að kristin lög voru samþykkt á Alþingi Íslendinga
— tókst að koma á fót klaustri á Bæ í Borgarfirði fyrir tilstilli farand-
biskupsins Rúðólfs. Samskonar tilraun var gerð í Hólmi við Niðarós
í Noregi tveimur árum fyrr en starfsemi þeirra beggja lognaðist
raunar út af eftir aðeins tveggja áratuga rekstur.11 Óvíst er þó hversu
mikill stofnanabragur var á umgjörð þessara klaustra, vegna skorts
á heimildum um starfsemi þeirra og umsvif, en síðast er getið um
þrjá munka í klaustrinu á Bæ árið 1049. Þá hafði Rúðólfur tekið við
embætti ábóta í Abingtonklaustrinu á englandi. klaustrið í Hólmi
var hins vegar endurreist um aldamótin 1100.12
Tæp öld leið þar til tókst að koma klausturlifnaði á hér á landi til
frambúðar með stofnun klausturs að Þingeyrum í Húnaþingi árið
1133. Þingeyraklaustur var rekið samfleytt í 418 ár, en biskupsstól-
arnir á Íslandi áttu auðvitað þátt í að skapa sterkari grundvöll fyrir
klausturstarfsemi í landinu. Urðu klaustrin að minnsta kosti fjórtán
talsins áður en lúterskri kirkjuskipan var komið á og siðaskiptin
urðu, um miðja sextándu öld; það síðasta var stofnað að Skriðu árið
1493 (mynd 1). Flest þeirra voru rekin um aldir en önnur aðeins í
fáein ár. Þau farsælu urðu fjölmenn, bæði af leikmönnum og reglu-
fólki, enda ráku þau stórbú, framleiddu verðmæti af ýmsu tagi og
áttu eins og biskupsstólarnir miklar eignir í formi jarða og lausa -
fjár.13
Þannig er ljóst að Rómakirkja var virkur þátttakandi í íslensku
mið aldasamfélagi, rétt eins og hún var annars staðar þar sem reglu -
boð hennar voru leidd í lög. Þróun samfélaganna í álfunni allri varð
þess vegna lík og héldust tengslin áfram þegar fram liðu stundir
fyrir tilstilli jafnt veraldlegra og kirkjulegra laga, reglugerða og
hefða. Það er þess vegna rík ástæða til að ætla að elsta gerð klaustur-
lífs, einsetan, hafi sömuleiðis tíðkast hér á landi líkt og í öðrum þeim
samfélögum sem Rómakirkja teygði anga sína til. varðveittar frá-
sagnir í íslenskum heimildum af einsetufólki hérlendis benda í það
11 DI. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn I. Útg. Jón Sigurðsson
(kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag 1857), bls. 483; erik Gunnes,
„klosteranlegg i Norge. en oversikt“, Fortidsminner nr. 68 (1987), bls. 51.
12 DI I: 1857, bls. 483.
13 vilborg Auður Ísleifsdóttir, Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565 — byltingin að ofan
(Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1997); Steinunn kristjánsdóttir, Sagan
af klaustrinu á Skriðu (Reykjavík: Sögufélag 2012), bls. 297–311; Árni Daníel
Júlíusson, Jarðeignir kirkjunnar og tekjur af þeim 1000–1550 (Reykjavík: Center for
Agrarian Historical Dynamics 2014), bls. 19–132.