Saga - 2015, Page 100
Saga LIII:1 (2015), bls. 98–120.
þorsteinn helgason
Minning sem félagslegt fyrirbæri
Síðari hluti: Þjóðminning
Sameiginleg minning heilla þjóða, þjóðminning, er ein af grunnstoðum
þjóðríkisins enda nýtur hún verndar og skyldu í skólakennslu flestra ríkja.
Í þessari grein er fjallað um það hvernig þjóðminning verður til og hvernig
henni er viðhaldið svo og fræðileg skrif á þessu sviði. Í því sambandi er
sjónum beint að sögukennslubókum sem kallaðar hafa verið „verkfæri
þjóðminninga“ og hafa mikilvægu hlutverki að gegna við sköpun slíkra
minninga víðast um lönd þó að fjölhyggju og gagnrýni gæti í þeim á síðari
árum, m.a. hér á landi. Minningarhátíðir eru annað slíkt verkfæri og hér er
þjóðminning einnig rædd út frá hlutverki slíkra hátíða, bæði á Íslandi og
erlendis, einkum í Bandaríkjunum og Ástralíu. Svo virðist sem minningar-
hátíðir, einkum á síðari árum, þurfi að rúma gagnrýnisraddir til að teljast
vel heppnaðar og tryggja samstöðu. Þjóðminning getur því verið áhrifa -
mikið fyrirbæri þótt hún sé margradda og jafnvel þverstæðukennd.
Í fyrri hluta þessarar greinar var fjallað um einstaklingsminningu og
sameiginlega minningu (e. collective memory) og tengsl þeirra á milli.
Hér verður þessi þráður spunninn áfram og kannað hvaða myndir
hin sameiginlega minning getur tekið á sig þegar hún leysir böndin
við einstaklinginn, verður sjálfstæðara afl og tengist ákveðnum hóp-
um og heilum þjóðum.
einstaklingsminningar verða til í félagslegu samhengi (sagði
Maurice Halbwachs) en þær eru hluti af sjálfsmynd einstaklingsins
og hafa því um sig nokkurn verndarhjúp. Sameiginlegar minningar
(hópminningar) eru hins vegar á bersvæði og hægt er að hafa áhrif
á þær með skipulegum hætti, móta þær og breyta þeim með áróðri
og upplýsingu. Þjóðminningar hafa verið máttugt afl í þjóðríkja-
myndun og þjóðernisvitund a.m.k. frá því á nítjándu öld og margir
aðilar viljað taka þátt í mótun þeirra, svo sem ríkisvald, stjórnmála-
hreyfingar, viðskiptamenn, listafólk og fræðimenn. Þjóðminning arn -
ar varða uppruna þjóðanna, gullaldartímabil, þrengingar og niður-
lægingu jafnt sem veg þeirra til framfara og sjálfstæðis. Þær tilgreina
atburði og einstaklinga sem haldið skal á lofti. Þjóðminningar segja
því til um val á efnisatriðum og skýra megindrætti þeirra.