Saga - 2015, Page 121
þannig í fjarlægð frá einstaklingnum, sjálfsverunni. Ég vil sjá báðar
hliðar en leggja jafnan áherslu á sjálfsveruna sem tekur þátt í að
móta sameiginlegu minninguna — og mótast af henni — sem (mis-
jafnlega) virkur gerandi. Sameiginleg minning stendur að miklu
leyti utan við einstaklinginn en hún er þó meira en myndhverfing
því hún heldur vissum einkennum einstaklingsminninganna. Sam -
eigin leg minning sem er staglkenndur lærdómur úr kennslubókum
eða einhliða valdboð að ofan virkar ekki nema að litlu leyti. ein -
staklingurinn verður að gera efnið að sínu eftir eigin skilningi, til-
finningu og sjálfsvitund. við hagstæðar aðstæður getur einstakling-
urinn upplifað liðna tíð sem hann hefur ekki lifað „í holdinu“ á
svipaðan hátt og um einstaklingsminningu væri að ræða. Sameigin -
leg minning lifir í menningunni sem umlykur okkur, í töluðu máli
og rituðu, í siðum og venjum, í trú og siðgæði. Því má kalla hana
menningarminningu.
Minningarnálgunin er sveigjanleg og gefur okkur tækifæri til að
móta hana og laga að ólíkum staðfélögum og einstaklingum án þess
að hún missi kjarna sinn. Minningar eru ekki einungis spurning um
„afþrykk“ af liðnum stundum sem varðveitist í huga einstaklingsins
heldur einnig og ekki síður viðhorf til þessara stunda, mat á þýðingu
þeirra, á samhengi þeirra við aðrar stundir, á orsökum og afleiðing-
um. Þetta viðhorf og mat er breytingum undirorpið og þær breyt-
ingar stafa af aldri, þroska og stöðu einstaklingsins í ýmsu samhengi
(þetta benti Halbawchs á) og þar með og ekki síður af þjóðfélagsleg-
um breytingum. Samfélag, menning og einstaklingur eru því í nánu
samhengi í þessum skilningi.
Minningarfræðin má kalla tísku eins og aðrar hugmyndahreyf-
ingar sem ná fótfestu. Þau bera merki um vonbrigði eftir fall stóru
hugmyndakerfanna og það skýrir að einhverju leyti hve meginhug-
tök þeirra eru fljótandi. Þau hverfast inn á við en iðkendur þeirra
gera sér þó grein fyrir samveruleikanum. Minningarfræðingar eru
jafnframt þátttakendur í hundrað ára uppgjöri við pósitífismann án
þess þó að missa fótanna og segja að allt sé jafngilt, eins og póst-
módernistar hafa verið sakaðir um. Iðkendur minningarfræða ætla
sér ekki lítið því vettvangur þeirra er einstaklingurinn í samspili við
hópinn af ýmsum gerðum, samverkun nútíðar, fortíðar og fram -
tíðar; vitund einstaklingsins og áhrif hópa og vísindaiðkunar.
minning sem félagslegt fyrirbæri 119