Saga - 2015, Qupperneq 191
Sumarliði R. Ísleifsson, SAGA ALÞÝÐUSAMBANDS ÍSLANDS. For -
lagið. Reykjavík 2013. Tvö bindi: 384 og 402 bls. Myndir, línurit og
nafnaskrá.
Fyrir nokkru kom út Saga Alþýðusambands Íslands eftir Sumarliða R. Ísleifs -
son. verkið er mikið að vöxtum, í tveimur bindum sem eru hvort um sig um
400 blaðsíður. ASÍ átti frumkvæði að því að ráðist var í þessa söguritun.
verkið spannar tímabilið frá seinni hluta 19. aldar til um 2010 og gefur
víðtæka og heildstæða mynd af viðfangsefninu.
Sumarliði R. Ísleifsson skilgreinir nálgun verksins í inngangi sem „sögu
verkalýðs á Íslandi“ frekar en sem hefðbundna sögu verkalýðshreyfingar-
innar sem stofnunar. Hann fylgir þar fordæmi Þorleifs Friðrikssonar í ritum
hans um sögu Dagsbrúnar, þar sem lífshættir og lífskjör verkafólks voru í
brennidepli og sagan sögð frá sjónarhóli fólksins fremur en hreyfingarinnar.
Í höndum Sumarliða tvinnast þetta þó eðlilega saman, saga lífskjaranna og
saga hreyfingarinnar. Það má því lýsa þessu verki sem sögu verkalýðs, lífs-
kjara og framfara.
Þessi nálgun Sumarliða og þeirra ASÍ-manna sem með honum unnu er
afar vel heppnuð, sérstaklega í fyrra bindinu. Bækurnar gefa ljóslifandi
mynd af stöðu verkafólks og þróun lífskjara á Íslandi frá því að nútíma -
væðing samfélagsins hófst undir lok 19. aldar til þess tíma er Íslendingar
voru komnir í hóp hinna hagsælustu þjóða og státuðu af lífskjörum almenn-
ings sem eru með því besta sem þekkist í heiminum í dag (sjá Stefán
Ólafsson, „Well-Being in the Nordic Countries. An International Com -
parison“, Stjórnmál og stjórnsýsla, 9:2 (2013), bls. 345–372). Þetta er því saga
mikilla breytinga og mikils árangurs. Sjónum er auðvitað sérstaklega beint
að því hvernig framfarirnar spruttu úr grasrót hins vinnandi fólks og
hvernig barátta þess fyrir umbótum með virkjun samtakamáttar fór fram,
skref fyrir skref. Þar skiptust á skin og skúrir, sigrar og ósigrar, samstaða og
sundrung — en mest var þróunin þó fram á við.
Sumarliði leitar víða fanga, í fræðiritum og samantektum um sögu verka -
lýðshreyfingarinnar, þingtíðindum, dagblöðum, tímaritum og skýrslum,
auk æviminninga og rita um sögu einstakra verkalýðsfélaga. Þótt megin-
sjónarhornið sé á líf alþýðufólks tekst honum að tengja frásögnina vel við
stofnanasögu verkalýðshreyfingarinnar, sem frá og með fjórða áratug síð -
ustu aldar varð ein af áhrifamestu stofnunum samfélagsins.
Hvert tímabil í sögunni er skilmerkilega sett í samhengi við stöðu og
þróun samfélagsaðstæðna. Þannig byrjar Sumarliði bæði bindin með kafla
um samfélagið á tímabilinu og helstu breytingaþætti. Til dæmis hefst fyrra
bindið á umfjöllun um atvinnubyltinguna á Íslandi frá um 1890 til 1940, eftir
stutta kynningu á þróun verkalýðshreyfingar í nágrannalöndunum. Það er
ritdómar 189