Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 96
95
En allt hefur sinn tíma, það þurfti að undirbúa jarðveginn, Sigurgeir átt-
aði sig á því að tíminn fyrir samvinnuverslun var ekki kominn, enn vantaði
nokkuð uppá til þess að heimamenn hefðu félagslega burði til að stofna og
reka eigið kaupfélag í anda samvinnustefnunnar eins og Kaupfélag Hrút-
firðinga.
Sigurgeir rak kaupmannsverslun á Óspakseyri við hliðina á útibúi Kaup-
félags Hrútfirðinga í 21 ár, sem í ljósi þess sem síðar gerðist, verður að líta
á sem fyrstu raunverulegu tilraun heimamanna til sjálfstæðs verslunar-
rekstur. Verslunarrekstur Sigurgeirs skapaði nauðsynlega reynslu og þekk-
ingu á verslunarrekstri, sem fóstursonur hans Þorkell Guðmundsson nýtti
sér þegar kom að stofnun og rekstri Kaupfélags Bitrufjarðar 1942. Þrátt
fyrir að Sigurgeir ræki eigin verslun er dagljóst að samvinnuhugsjónin frá
Möðruvallaskólaárunum hafði ekki yfirgefið hann. Það sést best á því að
fóstursonur hans, Þorkell Guðmundsson, varð einn af frumkvöðlunum að
stofnun Kaupfélags Bitrufjarðar. Það er óhætt að fullyrða að hefði Þorkell
ekki verið einlægur samvinnumaður og borið hag samfélagsins í Bitrufirði
fyrir brjósti, hefði stofnun kaupfélags á Óspakseyri orðið torsótt ef ekki
ómöguleg.
Félagssvæði kaupfélagsins var fyrst og fremst Óspakseyrarhreppur, en
auk þess voru félagar frá Guðlaugsvík og Skálholtsvík í Bæjarhreppi og
Broddadalsá, Broddanesi, Steinadal og Miðhúsum í Fellshreppi. Félags-
menn lögðu inn sláturfé í sláturhúsið, unnu við haustslátrun, sóttu dag-
legar nauðsynjar í verslunina, lögðu afgangs fjármuni inn í innlánsdeild
kaupfélagsins og fólu því að annast varðveislu fjárins. Verslunin var að
langstærstum hluta verslun út í reikning, sem þýddi að haustinnleggið var
bókfært samkvæmt reglum um afurðaverð hverju sinni og á móti var úttekt
viðskiptavina bókfærð í reikning og uppgjör sent öllum félagsmönnum um
áramót, þar sem staða hvers og eins gagnvart kaupfélaginu var tíunduð í
krónum og aurum.
***
Árið 1945 var rekstur Kaupfélags Bitrufjarðar kominn í það horf, sem
stefnt var að og verslunin komin í fullan rekstur, sláturhúsið tekið til starfa
og öllum samningum lokið við Kaupfélag Hrútfirðinga. Félagið var gengið í
Samband íslenskra samvinnufélaga (1942) og reksturinn allur í góðu horfi.