Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 164
163
Helgasyni, sem kenndi smíðar og sá oft um viðgerðir á því sem aflaga fór í
skólanum. Gott var að geta leitað til hans þegar eitthvað þurfti að lagfæra,
en hann bjó í næsta húsi við skólann, í Ólafshúsi.
Ólafshúsi hafði verið ætlað að vera bústaður skólastjóra skólans, en varð
það aldrei því Bjarni faðir minn og ég bjuggum í Lyngholti. Ég hafði þó
um tíma afnot af kjallara hússins og nýtti þá það pláss til að hýsa nokkra
nemendur, sem ekki var hægt að hýsa í skólanum sakir þrengsla. Það stóð
aðeins í stuttan tíma. Síðar var Lestrarfélag Bæjarhrepps í þessu húsi þar
til það fluttist í nýja skólahúsið þar sem það er nú.
Já, það voru oft margir nemendur samtímis í skólanum, þó ekki væru
þeir allir í heimavistinni. Mörg börn áttu heima á Borðeyri og bjuggu þau
að sjálfsögðu heima hjá sér. Ef ég man rétt voru einu sinni 22 nemendur
samtímis í yngri deild og 16 í eldri deild. En þá voru ekki báðar deildirnar
í skólanum á sama tíma. Já, það var oft þröng á þingi í gamla skólanum.
Rétt er að geta þess að börnin voru yfirleitt heima hjá sér um helgar og
sáu þá foreldrar þeirra um að sækja þau og skila aftur í skólann.
Lengi var ég eini kennarinn við skólann. Þó ber að sjálfsögðu að nefna
þrjá stundakennara, Rögnvald Helgason, sem áður er getið, Guðbjörgu
Haraldsdóttur og Jenneyju Jónasdóttur sem kenndu handmennt. Þó ekki
samtímis.
Venjulegur skóladagur í gamla skólanum
Kennsla hófst kl. 9:15, þá hafði verið kveikt á ljósavél staðarins og allir
komnir á fætur og búnir að borða hafragrautinn hjá Önnu ráðskonu. Það
voru þrjár kennslustundir fyrir hádegi og hver stund 45 mínútur með
15 mínútna hléi á milli. Hádegismatur var borðaður kl. 12 og síðan frí til
kl. 13 og fóru allir út í hádeginu, nema sá sem átti að aðstoða í eldhúsinu
við að þurrka upp eftir matinn, en börnin skiptust á að gera það. Klukkan
13 hófst svo kennslan að nýju og voru þá tveir tímar í kennslu og stóðu
þeir til kl. 14:45.
Eftir kl. 14:45 tók við langt frí og fóru þá allir út í hlaupaleiki, sem oftast
voru annaðhvort stórfiskaleikur eða útilegumannaleikur. Reyndi ég að taka
þátt í þeim með börnunum, ef ástæður leyfðu. Veit ég að við höfðum öll
mikið gott af þeirri hreyfingu, ekki síst fyrir það að engin íþróttaaðstaða var
í skólanum. Leikirnir fóru oftast fram við skólann og víðs vegar á Borðeyri,