Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 100
99
kjötið flutt suður, gærurnar fluttar til Óspakseyrar þar sem þær voru salt-
aðar og fluttar þaðan suður með strandferðaskipunum, sem komu reglu-
lega til Óspakseyrar með nauðsynjavöru til verslunarinnar.
Árið 1945 voru enn á ný tímamót þegar lagður var vegur um Bitru-
fjörð. Smávegis ágreiningur kom upp milli vegagerðarinnar og stjórnar
kaupfélagsins um það hvor aðilinn ætti að bera kostnaðinn af því að ryðja
veg niður á Óspakseyrartangann, en sá ágreiningur var snarlega leystur
með því að kaupfélagið lagði fram 500 krónur til verksins en vegagerðin
afganginn og annaðist verkið.
Um haustið var fyrst slátrað á Óspakseyri.
Sláturaðstöðu var komið upp í gömlu vöruhúsi verslunarinnar á eyrinni,
en ný geymsla byggð fyrir verslunina við búðina.
Menn leystu málin til bráðabrigða og víluðu ekki fyrir sér þótt aðstaðan
hafi ekki verið upp á það besta til að byrja með.
Strax var ráðist í byggingu alvöru sláturhúss, sem tók til starfa 1953.
Með sláturhúsinu breyttist öll aðstaða til búskapar eins og best sést á
því hvernig fjöldi sláturfjár á starfstíma sláturhússins á Óspakseyri óx frá
1942 - 2002.
Haustið 1943 var slátrað 1450 kindum í fjárhúsunum í Guðlaugsvík
en seinasta árið sem sláturhúsið á Óspakseyri starfaði var slátrað milli sex
og sjö þúsund kindum. Þetta segir meira en mörg orð um hvaða breyt-
ingum búskapurinn tók á þessum árum.
Á mælikvarða nútímans var sláturhúsið á Óspakseyri lítið. Flestu fé var
slátrað þar 1979, liðlega sjö þúsund kindum, en að jafnaði var fjöldinn í
kringum fimm til sex þúsund eins og sést á yfirliti aftast í greininni. Þrátt
fyrir smæðina þjónaði sláturhúsið eigendum sínum vel og gerði bændum
kleift að fjölga fé og koma frá sér afurðum með tiltölulega auðveldum
hætti. Annað sem réð miklu í rekstri sláturhússins og afkomu bændanna
var það, að það voru bændurnir sjálfir, sem unnu í sláturhúsinu þannig
að verulega stór hluti af sláturkostnaðinum varð eftir í samfélaginu. Til
viðbótar má geta þess, að ekki einasta urðu tekjurnar af sláturhúsvinn-
unni mörgum kærkomin búbót, heldur hafði sláturtíðin heilmikið félags-
legt gildi. Þarna unnu saman karlar og konur úr samfélaginu, ræddu málin
allan vökutímann, höfðu uppi glens og gamanmál auk þess að ræða alvöru
lífsins þegar svo bar við. Þarna var oft fitjað fyrst upp á ýmsu sem til fram-