Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 123
122
matur, dagbók þar sem því er lýst að heimilisfólkinu öllu sé kalt og það sé
svangt. Þannig var staðan á Fitjum í mars og apríl 1869:
8. mars. Logn og gott veður. Árni fór vestur í dögun. Nú um tíma
hefur verið hér á Fitjum, ein máltíð matar á dag, af grösum, méli og
dropi af mjólk, item 2 tægjur af kjöti hjá okkur undirfólkinu. […]
21. mars. Sunnan með skúrum á milli. Pálmasunnudagur. Nú er hér
gefinn fiskur og lítið við af mör einu sinni á dag og mörk af flautum.
Nú í dag þurr fiskur. […]
26. mars. Föstudagurinn langi. Logn og hreinviðri, þétt frost. Við
Fríða og Magnús sóttum hrís á skíðasleða. Árni að Hrófbergi til að
leita matbjargar. Hann kom jafn snauður aftur.
27. mars. Hægur sunnan og þíðviðri. Árni að Grænanesi, til ónýtis.
Grös, lítið mél og dropi af mjólk nú tvisvar á dag. Allir svangir.
28. mars. Sunnan hláviðri. Til kirkju héðan, Árni og Arnfríður. Sama
fæða. Ekkert kaffi. Man ég þetta aumasta páska að mat. […]
3. apríl. Vestan sperra og bloti, síðast þurr og hægjandi. Nú er hér til
matar grös, mél og lítill kaffibolli af mjólk á morgna, en kökuplentur
að kvöldinu og bollinn með. Síðan eftir jól enginn miðdagsmatur.
Hafa börnin oft grátið af sulti og kulda. […]
6. apríl. Norðan mold og harka. Halda menn hér naumast lífi fyrir
kulda og sulti. Séð hefur sól í dag á milli. […]
10. apríl. Norðan með kófi og hörku. Alltaf sólfar með. Kom Málfríður
mín og varð um nóttina. Vatn, grös og mél, kvölds og morgna og
munnsopi af mjólk. Ekkert um miðdegið langan tíma.
Betliferðir eru algengar frá Fitjum, meðan Jón dvelur þar, bæði á nálæga
bæi þegar hungrið svarf að, en líka lengri reisur út á Selströnd, handan
fjarðar, þar sem selveiðin var meiri og auðugari heimili, t.d. á Hellu,
Kleifum og Bjarnarnesi. Einnig var farið árlega eða oftar í reisu að stór-
býlinu Broddanesi við Kollafjörð, í ferðir sem Jón kallar „eggjasníkjur“ eða
til að fá gefins sel.
Síðar í apríl 1869 segist Jón vera alfarinn frá Fitjum og fer á flakk
milli bæja í Tungusveit. Á manntalsþingi í lok maí er hann settur niður
sem niðursetningur á Heydalsá gegn vilja sínum. Um þetta segir hann í
dagbókinni: