Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 131
130
Hér er líkt og það opnist aftur fyrir aðra tilfinningu á dagbókarblöðum
Jóns eða gleðina, eftir fæðingu barnabarnsins. Það er gott að lesa hvað
honum er sannarlega umhugað um velferð móður og barns og síðasta
færslan áður en við kveðjum þessar löngu horfnu stundir: „Ég lifði þar í
ánægju“, eru býsna góð, eftir allt sem á undan var gengið.
Jón gamli og framtíðin
Á þessum tímapunkti, eftir að við höfum ritað upp dagbókina hans Jóns
og náð ágætri yfirsýn yfir innihald hennar, er áhugavert að velta fyrir sér
gagnsemi slíkra rannsókna. Það er áleitin spurning hvernig dagbókin hans
Jóns og aðrar slíkar bækur frá 19. öld geta nýst, því við ætlum vissulega að
halda áfram að skoða efniviðinn frá sjónarhóli þjóðfræðinnar.
Forvitnilegt verður að skoða áfram persónu Jóns, hvernig hann heldur
ákveðinni fjarlægð við tilfinningar sínar í takt við almennt form dagbóka
á fyrri tíð, en missir einnig stjórn á þessum tilfinningum við ákveðnar
aðstæður og sýnir þá um leið betur hvernig manneskjunni leið í raun og
veru. Hér gefst tækifæri til að skilja betur gleði og sorg í sveitasamfélagi
19. aldar. Viðhorf fólks til margvíslegra atriða og litróf tilfinninganna eru
spennandi umfjöllunarefni.
Einnig er auðveldlega hægt að nýta dagbækur við kortlagningu hvers-
dagsins. Áhugavert væri að stefna fleiri bókum saman og reyna að nálgast
heildarmynd af daglegu lífi og hversdagslegum verkefnum á afmörkuðu
svæði og afmörkuðum tíma, með hliðsjón af stétt og stöðu dagbókarritara.
Spennandi væri að sjá hvernig slík heildarmynd myndi passa við upp-
lýsingar sem aðrar heimildir gefa og almenna söguskoðun um daglegt líf
fólks á 19. öldinni.
Um leið verður að viðurkenna að ákveðnir annmarkar eru á að nýta
dagbækur við að kortleggja daglegt amstur. Einn af þeim snýr að kynja-
breytunni, karla- og kvennastörfum. Inniverkin tilheyra t.d. ekki daglegu
lífi Jóns og koma lítið við sögu, hans vettvangur og fleiri karlkyns dagbóka-
ritara er utandyra. Dagbækur skrifaðar af konum eru hins vegar sárafáar á
söfnum. Eftir sem áður getur dagbókin hans Jóns líka sagt heilmikið um
stöðu og hlutskipti kvenna í samfélagi 19. aldar. Þannig væri vel hægt að
taka lífshlaup annarra en Jóns sjálfs til rannsóknar, með dagbókina sem
lykilheimild, t.d. Ingigerðar konu hans eða Þóreyjar elstu dóttur þeirra.