Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 127
126
árið 1865. Segja má að þessir tveir atburðir lýsi dýpra inn í sál ritarans,
en aðrir.
September árið 1850 einkennist af kvefi og slappleika heimilisfólksins
í Miðdalsgröf, enda gengur þá yfir landfarsótt. Þann 13. september segir
Jón um tvö af börnum sínum: „Björn og Málfríður þungt haldin af kvef-
þyngslum.“ Daginn eftir er Málfríður orðin skárri, en Birni er þyngra og
15. september segir Jón „auðséð hvar lenda ætlaði.“ Daginn eftir segir í
dagbókinni:
16. september. Suðvestan stormur og þerrir. Jón var í leitunum.
Stúlkurnar rökuðu í keldunni 2. Gunna litla var heima hjá móður
sinni, ásamt Guðrúnu í Heiðarbæ að hjúkra að líkama Björns – sáluga,
sem andaðist um nóttina kl. 1½. Blessuð sé hans minning.
Þarna eru Jón og Ingigerður búin að missa son sinn Björn, aðeins 7 ára
gamlan. Deginum er lýst með hefðbundnum hætti, veðrið er tekið, störfin
eru tíunduð. Svo koma fréttirnar, í þetta skiptið engar smá fréttir fyrir
Jón persónulega. Oft hefði lítið verið meir um þetta skrifað. Oftast er lagt
að baki það sem liðið er og lífsbaráttunni haldið áfram. En svo er aldeilis
ekki í þetta sinn. Eftir þetta andlát í Miðdalnum birtast margoft lýsingar á
sorg þeirra hjóna á síðum dagbókarinnar og glöggt má sjá langt og erfitt
sorgarferli, ekki síst hjá Ingigerði. Fyrstu dagarnir voru fjölskyldunni sér-
lega erfiðir:
17. september. Suðaustan hríðar gúlpur mestallan daginn. Björn minn
á Klúku var hjá okkur að smíða utan um blessaðan líkamann Björns
míns sáluga. Jón kom úr leitunum.
18. september. Austan garður með þoku og stórhríð allan daginn.
Snjóaði til fjalla, allt lak og streymdi venju fremur. Við Björn minn
entum við kistuna og lögðum í hana blessaðar jarðneskar leifar
Björns míns sáluga. Blessaði Jesús mun taka sál hans og líkama í sína
umsjón.
19. september. Austnorðan, þétt úrfelli öðru hverju. Við Jón gjörðum
við alla klafana. Annars vorum við foreldrar þess sársaknaða ástvinar
sinnulitlir.
20. september. Austnorðan, úrfellis minni, snjóaði til fjalla. Leituð
eftirleit. Ekkert var átt við hey. Við hjónin ángruð og sinnulítil. […]