Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 80
79
Fram eftir öldum, meðan samgöngur voru torsóttar bæði til sjós og lands,
tóku menn sér ekki ferð á hendur í aðrar sóknir, nema erindi væru brýn
og veðurútlit gott eða bærilegt. Þar sem um fjallveg eða sjávarveg var að
fara, var samgangur lítill og oftast bundinn við fáeina einstaklinga, sem
höfðu starfa, sem tengdist sendiferðum og brýnum erindagjörðum. Ferða-
lög alþýðu manna, alveg fram á 20. öld, voru lítt tíðkanleg, fólkið hélt sig
heima við, við sín daglegu störf, enda mátti aldrei slaka á ætti að takast
að afla nauðsynja fyrir heimilisfólk frá ári til árs. „Bæjaflakk“ var lengi illa
séð í sveitum á Íslandi og þótti ljóður á hvers manns ráði sem stunduðu
slíkt. Ferðaleysið og samskiptaleysið, leiddi aftur á móti til samfélagslegrar
einangrunar, þar sem hvert samfélag þróaðist dálítið út af fyrir sig í sam-
ræmi við landfræðilegar aðstæður og sameiginlegar þarfir fólksins á hverju
svæði. Þar mótuðust í tímans rás siðir, venjur, samskiptahættir og talsmáti,
sem einkenndu hvert samfélag og tekið var eftir.
Það var/er ekki alveg út í bláinn þegar talað var/er um Kollfirðinga,
Bitrunga, Hrútfirðinga og fleiri sveitir, þar sem tiltekin sérkenni einkenndu
fólk og samfélag á hverju svæði fyrir sig, sem ekki var að finna í öðrum
sóknum.
Það má alveg hugsa sér, að sérstakar samfélagslegar aðstæður í Óspaks-
eyrarhreppi, samfara erfiðum samgöngum í báðar áttir, hafi ýtt undir kaup-
félagsstofnunina á Óspakseyri 1942. Það er ekki ólíklegt að jarðvegurinn
hafi verið til staðar í einhvern tíma áður en til þess kom, að það hafi aðeins
þurft kveikjuna til að ýta boltanum af stað. Að mínu áliti er kveikjan sam-
vinnuhugsjónin, sem smitar frá Sigurgeiri Ásgeirssyni, bónda og versl-
unarmanni á Óspakseyri, inn í samfélagið. Sigurgeir var lærður maður
í fræðunum. Fóstursonurinn Þorkell, tileinkaði sér hugmyndafræðina af
honum og varð fljótt svo hugfanginn af samvinnustefnunni, að í fyllingu
tímans hætti hann eigin verslunarrekstri og lagði lífsstarf sitt í að koma á
fót Kaupfélagi Bitrufjarðar og starfaði við það langa ævi.
Sérstaða samfélagsins kringum Bitrufjörð var með þeim hætti að þrátt
fyrir fámenni og kannski raunar vegna þess og ákveðinnar einangrunar,
kom ekki annað til mála en að þeir einir, Bitrungar, stæðu að stofnun kaup-
félagsins, ættu flesta hlutina og stjórnuðu því sjálfir og starfræktu það með
sína eigin hagsmuni í fyrirrúmi. Þeir hleyptu að vísu nágrannabændum að
kaupfélaginu, en aldrei svo, að þeir ógnuðu yfirráðum Bitrunga sjálfra.