Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 69
68
Eftirmáli
Í þeim stutta eftirmála sem hér fer á eftir er ætlunin að rekja lítið eitt
nánar æviferil þeirra tveggja manna sem stóðu að smíði og útgerð jakt-
skipsins Siguróskar, samanber söguna hér að framan. Verði endurtekningar
á því sem þar er sagt er beðist velvirðingar á því.
Magnús Einarsson
Í fyrsta bindi ritverksins Vestlendingar eftir fræðimanninn Lúðvík Krist-
jánsson segir:
Magnús Einarsson á Hvilft var tvíburabróðir Ásgeirs á Kollafjarðar-
nesi, fæddur 23. júlí 1809. Hann var með eftirtektarverðustu mönnum
í fjórðungnum um miðja öldina og kemur á slíkan hátt inn í sögu
Jóns Sigurðssonar að furðulegt er að frá því skuli ekki enn hafa verið
greint, svo sem vert væri og skylt. Um Magnús er mjög lítið vitað,
þangað til að hann flyst í Önundarfjörð. Hann hefur sjálfsagt alist
upp í Kollafjarðarnesi en hvert hann fer þegar hann hleypir heim-
draganum er allmjög á huldu. Sitthvað bendir til þess að hann hafi
farið til Danmerkur og lært þar sjómannafræði. Eftir að hann sest
að vestra er hann jafnan kallaður „skipherra“, en slíka nafnbót hlutu
yfirleitt ekki aðrir en þeir sem lært höfðu sjómannafræði erlendis.
Margt hnígur að því að hann hafi komist í kynni við Jón Sigurðsson í
Kaupmannahöfn, því að þegar þeir byrja að skiptast á bréfum virðast
þeir gagnkunnugir. Líklegt er að Magnús hafi verið skipstjóri á þil-
skipi frá Ísafirði um tíma, og eftir að hann kemur til Önundarfjarðar
heldur hann því áfram og gerist þá þátttakandi í útgerð. Honum er
þessi atvinnuvegur mjög hugleikinn og vill viðgang hans sem mestan.
Hann efnast þó ekki á útgerð sinni, því hann skilur við hana eigna-
laus maður. En þrátt fyrir það sér hann framtíð þessa atvinnuvegs
í ljósi mikilla drauma. Hann sér seglið hverfa fyrir gufuvélinni og
hann verður fyrstur Íslendinga til þess að hafa orð á því að þeir kaupi
gufuskip til fiskveiða. Þessi hugmynd hans um kaup á skrúfubát, eins
og hann kallaði það, er ekki síðar á ferð en í aprílmánuði 1848. […]
Haustið 1836 kvæntist Magnús Ragnheiði Jónsdóttur, heimasætu á
Hvilft, er þá var tuttugu ára. Hún var dóttir hjónanna Katrínar Ívarsdóttur
og Jóns Jónssonar er þá höfðu búið alllengi á Hvilft. [Hér er nauðsynlegt
að gera athugasemd: Ragnheiður kona Magnúsar var Finnsdóttir; faðir