Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 121
120
Í júní árið eftir, 1856, héldu illindi áfram og sést það í dagbókarfærslum
af og til:
4. júní. Vestan stormur. Ég með útbrot á niðurandlitinu. Varð ei sáð
vegna storms. Ormur fór að byggja fjós á minni lóð að óspurðum mér.
5. júní. Sama veður. Ormur reif gamla fjósið í forboði mínu. Varð ei
sáð. […]
25. júní. Austan gúlpur og væta er á leið. Við Þorkell stungum
klömbru. Varð Ormur myndugur yfir því!!! en hafði látið rista að 90
í óskiptu slægjulandi, að mér óspurðum, en hnausinn stakk ég í Hest-
húsflóanum í óskiptu, því hann var ætlaður til þess fyrir báða. Hann
kom úr kaupstaðarferðinni í gær. […]
27. júní. Austan hæglátari og þerrir. Var fært frá, Þorkell og Kristján
sátu hjá ánum. Málfríður og Björg hjá lömbunum. Tók ég mig burt úr
búri Orms, hann sitt og sína úr skemmunni minni. […]
16. júlí. Sama veðurstaða. Rökuð brekkan og útræktin og slegið
í stykkinu. Slóst Ormur upp á mig og mína með fúkyrðum og
hótunum. […]
Engu breytti þótt prófasturinn kæmi til að tala á milli bændanna og hægt
og sígandi hröktust Jón og Ingigerður af jörðinni, sem Prestbakkakirkja
átti, á næstu árum. Þau eru skráð húsfólk 1859, og árið 1860 fluttu þau
í verbúðarkofa Jóns í Naustavík og halda áfram baslinu þar, án búfénaðar:
16. maí. Norðan með frosti, þá á leið. Ég byrjaði að flytja mig frá Gröf
í Naustavíkina. Þar eð Ormur flæmdi okkur burt með sínum viður-
gjörning. Brunadynkirnir búnir að heyrast í 6 daga í landaustri.
Kofinn í Naustavík er í landi jarðarinnar Heiðarbæjar, þar sem Þórunn,
ein af dætrum Jóns og Ingigerðar, bjó með sínum manni. Víkin snýr að
bænum Húsavík og byggingar voru við sjóinn rétt innan við Fylgdar-
hamarinn. Lífið í kofanum í Naustavík var erfitt, hjónin vantaði oft kaffi
og tóbak eða matbjörg, en fengu líka stundum slíkar gjafir frá vinum í
nágrenninu. Strax fyrsta veturinn 1861 urðu þau þó að yfirgefa kofann og
hvort annað og fara í sitt hvora áttina, til að draga fram lífið: