Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 125
124
Síðasta áratuginn sem Jón lifði var lífsbaráttan auðveldari á Ströndum,
fiskur var í Steingrímsfirðinum og ágæt veiði. Jóni leið vel á Ósi, hann
smíðaði og gerði við smáhluti, reitti hrís, veiddi silung, hreinsaði fjallagrös,
skar tóbak og sinnti mörgum öðrum verkum. Jón varð nærri 84 ára gamall
og þótt hann væri oft vesæll og veikur hélt hann fullum sönsum til ævi-
loka. Síðasta færslan í dagbókinni hans er skrifuð í maí 1879:
31. maí. Ég hefi verið í og við rúmið þessa viku af landfarsótt og
brjóstveiki. Fundust hrútarnir er töpuðust í haust. Öðrum kastað,
hinn notaður. Alla þessa daga hefur verið sólfar og hægð.
Þremur dögum eftir þessa síðustu færslu í bókinni dó Jón gamli, saddur
lífdaga.
Tilfinningar og sorg
Það kennir ýmissa grasa í bók Jóns, margt er þar áhugavert og spennandi,
en líka margt æði hversdagslegt. Dagbókin hans er í rauninni langoftast
hefðbundin og meinhæg. Veðrið er tekið hvern dag, enda mikilvægt fyrir
Jón sem starfaði bæði til sjós og lands. Auk þess eru störfin sem lágu fyrir
hvern dag rituð upp og tíunduð.
1. desember. Útnorðan stormur með frosti og fjúki. Ég smíðaði sleða
til taðsóknar frá fjósi og hesthúsi, líka hurð fyrir stóra húsið. Andaðist
Valgerður litla nýfædd á Klúku.
Líkt og þessi færsla frá 1847 ber með sér voru líka í lokin færðar inn upp-
lýsingar sem hvorki féllu undir vinnu né veður. Hér er það sá viðburður að
litla barnið á Klúku, Valgerður, hefði fæðst og síðan fljótlega andast. Þetta
er sett í dagbókina án frekari málalenginga. Með svipuðum hætti er sagt
frá fleiri slíkum atvikum, eins og í apríl 1861 og júlí 1864:
1. apríl 1861. Þennan mánuð hefur verið sunnan átt, ýmist stormur
og leysing eða blíða logn. Mikill hákarlsafli á doggamiði og Hyrnum
páskavikuna. 50, 100 og þaðan af minna. Lítill afli á Gjögri. Tvennir
um 30 tunnur, ofan að 7 fjórðungum. Hafís þá úti fyrir. Fóðr fiski
og heilagfiskis afli alltaf á Vestfjörðum og Bjarneyjum. Síðast í
mánuðinum norðan stormar. Kom inn hafís. Barn dó og Dagbjört
systir mín í Arnkötludal úr taugaveiki. […]