Strandapósturinn - 01.06.2021, Blaðsíða 160
159
Heimilis- og farkennarar
Ber nú að geta tveggja heimilis- og farkennara er lengi störfuðu við kennslu
í Bæjarhreppi. Þeir voru að vísu fleiri, en ég læt nægja að minnast á störf
þeirra tveggja sem ég tel að lengst hafi starfað sem slíkir:
a) Ingibjörg Finnsdóttir frá Bæ sem kenndi í mörg ár í sveitinni og
síðast skólaárin 1929–1947. Hún var fædd 25. ágúst 1880 og
andaðist 9. ágúst 1972.
b) Bjarni Þorsteinsson síðast búsettur í Lyngholti. Hann var fæddur
11. ágúst 1892 og andaðist 24. september 1973.
Bjarni útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands vorið 1919 og starfaði sem
heimiliskennari 1919–1922 í Bæjarhreppi. Árin 1922–1924 kenndi
hann í Staðarhreppi í Hrútafirði og eftir það sem farskólakennari í Bæjar-
hreppi til ársins 1952 en þá var hann skipaður skólastjóri við Barnaskól-
ann á Borðeyri. Hann hætti störfum haustið 1957.
Bjarni, faðir minn, átti heima á Hlaðhamri þangað til hann kvæntist
móður minni Helgu Jónsdóttur frá Bæ í Hrútafirði (f. 6. ágúst 1892,
d. 13. nóvember 1973). Þau áttu fyrst heima í Bæ, síðan á Borðeyri, því
næst á Valdasteinsstöðum og að lokum í Lyngholti frá 1942. Lyngholt er
rétt innan við Borðeyri.
Starf farkennarans þegar faðir minn hóf farkennsluna árið 1922 var
ekki alltaf auðvelt. Hann fór á milli heimila, sem voru í stakk búin til að taka
á móti og hýsa hann og hóp af börnum, sem hann var kominn til að kenna
í ákveðinn tíma. Kannski í hálfan mánuð, kannski lengur, kannski styttra,
en eflaust oftar en einu sinni yfir veturinn. Síðan flutti hann sig á annað
heimili og kenndi þar ámóta lengi og svo framvegis. Hann fór oft gangandi,
berandi pjönkur sínar, landakort og helstu kennslubækur er hann ætlaði að
láta börnin fá. Stundum var hann fluttur á hestum, því að bílar voru ekki
algengir fyrr en löngu síðar. Síðustu árin sem hann kenndi voru jepparnir
komnir til sögunnar og eflaust hefur hann oft fengið far með þeim, því
engan bíl átti hann sjálfur eða hafði ökuskírteini. Honum var alls staðar vel
tekið og frétt hef ég það, að minnsta kosti á einu heimili hafi húsbændur
eftirlátið honum rúmið sitt til að sofa í svo að hann fengi örugglega ágætt
rúm til að hvílast. Tel ég víst að aðrir farkennarar hafi fengið ámóta góðar
móttökur og hann, bæði hvað varðaði fæði og svefnrúm.