Andvari - 01.01.2012, Qupperneq 148
146
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
En það er sem menn hafi einnig séð óhóf hjá Dickens í sjálfu umfangi skáld-
sagna hans. Tólf ár liðu uns næsta bók kom út undir nafni hans á íslensku, en
það var nóvellan Góða stúlkan í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar kennara,
en hún hafði birst fyrr á sama ári (1918) sem framhaldssaga í Heimilisblaðinu.
Hér hafa orðið samskonar mistök og við birtingu þriggja áðurnefndra sagna í
íslendingi. Þessi saga, sem nefnist á frummálinu „The Sickness and Health of
the People of Bleaburn“, hefur greinilega verið þýdd úr vikuritinu Household
Words, þar sem hún birtist í maí og júní 1850. Greinilega hefur verið talið
líklegt eða áreiðanlegt að Dickens hefði samið hana sjálfur, en sagan er í
reynd eftir annan merkan höfund, Harriet Martineau.17 Valið á þessari sögu
til þýðingar sýnir að sem fyrr virðast menn leita að frásögnum Dickens sem
eru handhægari en hinar stóru skáldsögur hans. Það liðu nokkur ár uns Oliver
Twist var fylgt eftir með annarri skáldsögu, en það var David Copperfield
sem birtist í íslenskri þýðingu Sigurðar Skúlasonar árið 1933 og hún var end-
urprentuð 1964. í þeirri sögu er að finna eina minnisstæðustu aukapersónu
Dickens, herra Micawber, sem sveiflast stöðugt og iðulega frá lífsgleði til
örvæntingar, og gengur misjafnlega að fóta sig á samfélagssvellinu og lendir
m.a. í skuldafangelsi. Frásögnin er brydduð gamansemi og Micawber er upp-
spretta skops og léttleika í verkinu og það fer vel fyrir honum að lokum.
Dickens hafði horft á eftir föður sínum í skuldafangelsi og sú stofnun átti eftir
að birtast í mun skuggalegra samhengi síðar á ritferli hans, einkum í skáld-
sögunni Little Dorrit, þar sem skuldafangelsið verður að segja má táknmynd
rótgróinnar meinsemdar í bresku samfélagi.
Þótt persóna Micawbers komist þokkalega til skila í íslensku þýðingunni
á David Copperfield, verður hið sama ekki sagt um ýmsa aðra þætti í verk-
inu eða um verkið í heild sem skáldsögu. Sagan er verulega stytt og í vissum
grundvallaratriðum annað verk en það sem Dickens samdi. Þýðandi segir um
þetta í formála: „Sögur Charles Dickens voru yfirleitt mjög langdregnar og
svo er um Davíð Copperfield. Skáldið sá svo glöggt og þurfti frá svo mörgu
að segja, að það gat ekki takmarkað sig. En meðal annars af þessum ástæð-
um hefur verið tekið upp það ráð í seinni tíð, að gefa út eins konar útdrætti
við unglinga hæfi úr skáldsögum Dickens. Þar er séð svo til, að allir helztu
atburðir sagnanna séu tilgreindir og atburðarásin raskist ekki, en jafnframt
er reynt að varðveita sem bezt frásagnareinkenni höfundarins sjálfs. Slíkar
útgáfur við unglinga hæfi geta verið ágætar, ef vel er til þeirra vandað. Án
þeirra er við búið, að yngsta kynslóð vor, sem ekki hefir tíma né tækifæri til
að lesa nema örlítið brot af samtíðarbókmenntum sínum, mundi fara á mis við
ýmislegt það bezta úr bókmenntum horfinna alda, sem að öðrum kosti væri
henni of fjarlægar og torlesnar. En slíkir útdrættir eða endursagnir eiga líka
að geta orðið til þess að vekja hjá lesendum áhuga fyrir því að ráðast síðar í
að lesa verkin í heildarútgáfu á frummálinu.“18