Andvari - 01.01.2012, Page 159
ANDVARI
BRAUTRYÐJANDI, ELDHUGI OG TRÚMAÐUR
157
Þórhallur Bjarnarson, þá nývígður biskup, sendi prestum hirðisbréf í árs-
byrjun 1909. Þar kvað hann ferðir sínar um landið og bréfaskipti við menn
víða um land hafa sannfært sig um að sú skoðun væri víða að festa rætur að
þarfleysa væri „að hafa presta og kirkjur, og megi kasta hvorutveggju frá sér
sem útslitnum tækjum“.4 Áleit hann að þessi viðhorf mætti rekja til vaxandi
skólamenntunar og aukins félagsstarfs. Það voru þó ekki þessi framfararöfl
sem slík sem ollu hinni neikvæðu afstöðu að hans mati. Meinið var að kirkjan
kunni ekki „mál nútímans".5 Áhugaverðar í þessu sambandi eru og hugleið-
ingar „gamals prests“ sem birtust í málgagni Þórhalls biskups, Nýju kirkju-
blaði, um svipað leyti. Að mati hans hafði guðrækni og trúariðkun greinilega
hrakað meðal almennings miðað við áratugina á undan þótt trú þeirra sem á
annað borð tryðu hefði orðið meðvitaðri. Hjá þeim virtist honum komin aukin
trúarleg glíma í stað umhugsunarlítillar samsömunar áður.6
Um miðjan annan áratug tuttugustu aldar leituðust Sigurður P. Sívertsen
(1868-1938) þá dósent við guðfræðideild hins nýstofnaða Háskóla og Þórhallur
Bjarnarson við að lýsa tölfræðilega þeirri þróun sem orðið hafði á guðsþjón-
ustuhaldi síðan tekið var að halda saman skýrslum presta þar að lútandi.
Niðurstaðan varð að dregið hefði úr messuföllum. Var það skýrt með fækk-
un prestakalla er ylli því að sjaldnar væri kallað til guðsþjónustu við hverja
kirkju. Biskup leit samt svo á að afturför hefði orðið í guðsþjónustuhaldi og
kvað guðsþjónustur vera orðnar stopular, jafnvel í þéttbýlum sveitum.7 Þróun
altarisgöngusiðarins hafði orðið stórstígari en breytingarnar í almennu guðs-
þjónustuhaldi og kvöldmáltíðargestum hafði stórfækkað. Brá biskup upp
þeirri mynd að um 1860-1870 hafi langflestir fermdir einstaklingar neytt
kvöldmáltíðar á hinum „stóru altarisdögum“, ekki síst norðanlands. Um 1890
er skýrslugerð hófst hafi veruleg hnignun verið orðin þannig að um þriðji hver
fermdur hafi gengið reglulega til altaris en um 1915 hafi varla meira en 10.
hver gert það. Þátttaka var misjöfn eftir landshlutum þannig að á Suðurlandi
(austanfjalls) hafði um fimmti hver fermdur einstaklingur verið til altaris en
rösklega 20. hver á Norðurlandi. Virtist biskupi hlutföllin hafa haldist nokkuð
stöðug frá um 1890.8 Við túlkun þessara talna ber að hafa í huga að hefðbund-
inn altarisgöngusiður hér á landi einkenndist af festu allt fram á síðari hluta
19. aldar, þ.e. langflestir fermdir einstaklingar gengu til altaris en þó aðeins
einu sinni eða hugsanlega tvisvar á ári. Var hér byggt á hefð sem festst hafði
í sessi á miðöldum.9 Um aldamótin 1900 var þessi siður sýnilega að leysast
upp.
Af því sem hér hefur verið sagt er ljóst að ýmsir forystumenn íslensku þjóð-
kirkjunnar veltu stöðu hennar meðal þjóðarinnar alvarlega fyrir sér á fyrstu
áratugum tuttugustu aldar. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að áhrif hennar
færu þverrandi, kirkjur stæðu víða hálftómar, þjóðkirkjuna væri að daga uppi
í þjóðlífinu.