Andvari - 01.01.2012, Page 160
158
HJALTI HUGASON
ANDVARI
Þróunin ífélagssögulegu Ijósi
Frá fornu fari hafði kirkjan verið fyrirferðarmikil stofnun og gegnt mikil-
vægum samfélagslegum hlutverkum á fjölmörgum sviðum. Kirkjan átti allt
frá miðöldum hátt hlutfall af bújörðum á landinu. Þess ber þó að gæta að
kirkjueignirnar voru ekki allar á hendi miðstýrðrar stofnunar. Þvert á móti var
frá upphafi um dreifða eignaraðild að ræða. Eignirnar tilheyrðu einstökum
sóknarkirkjum, klaustrum er héldust sem eignasamsteypur eftir siðaskipti en
þá í höndum konungs, biskupsstólunum uns þeir voru lagðir niður og jarð-
irnar einkavæddar, eða enn öðrum kirkjulegum stofnunum. Allar lutu þessar
stofnanir og þær jarðeignir sem þeim tilheyrðu forræði þeirra sem höfðu þær
að léni hverju sinni. Eigi að síður átti „kirkjan“ sem jarðeigandi beina og
óbeina aðkomu að atvinnulífi landsmanna til sjávar og sveita og hafði þannig
áhrif á efnahagslegar aðstæður í landinu. Við kirkjulegar stofnanir var stund-
uð ýmiss konar líknar- og velferðarstarfsemi (diakonia). Ekki má þó ýkja hlut
kirkjunnar í þessu efni þar sem hrepparnir báru frá upphafi ábyrgð á fram-
færslumálum og til þeirra rann fátækra- eða hausttíundin sem deilt var út til
að halda fátækustu heimilunum á floti.10 í skjóli kirkjunnar hófst og dafnaði
skólamenntun. Kirkjan var líka fyrst til að setja ákveðin viðmið um almenn-
ingsfræðslu.11 Loks mótaði kirkjan öðrum fremur siðferðismælikvarða sam-
félagsins og hélt að fólki þeirri heimsmynd, samfélagssýn og mannskilningi
sem nauðsyn þótti að samstaða ríkti um. Allt fram á nítjándu öld ríkti kristin
trúarmenning í landinu en það merkir að tákn og áhrif trúarinnar voru hvar-
vetna sýnileg á yfirborði samfélagsins. Aðstæður hér líktust þannig því sem
nú tíðkast í múslimskum löndum. Lögð var áhersla á að almenningur sam-
samaði sig kenningum kirkjunnar, tæki þátt í helgihaldi og rækti heimilis-
guðrækni og kristilegan húsaga. Minna var spurt um persónulega trúarsann-
færingu og hugmyndir um trúfrelsi áttu ekki upp á pallborðið.
Um næstsíðustu aldamót tóku breytingar að verða í þessu efni. Oft er rætt
um að sekúlarísering (afhelgun, veraldarvæðing) hafi orðið en með því er
átt við að hugarheimur fólks hafi orðið veraldlegri og völdin í samfélaginu
færst yfir á veraldlegar hendur en kirkjan misst áhrif sín. Þessi mynd krefst
nokkurrar aðgátar þar sem kannanir sýna að þjóðin var mjög trúuð allt fram
á lokaáratugi 20. aldar miðað við sambærilegar þjóðir þótt trú hennar hafi
e.t.v. ekki samræmst hefðbundnum, kirkjulegum kristindómi. Könnun sem
gerð var á níunda áratug liðinnar aldar sýndi að um 80% þjóðarinnar gátu
talist trúhneigð í einhverjum skilningi. Þegar spurt var um trú á tilvist guðs
svöruðu um 60% jákvætt. Þó leiddi rannsóknin í ljós að aðeins um þriðjung-
ur þjóðarinnar (33-37%) gat talist kristinnar trúar í þröngum kirkjulegum
skilningi. Sá hópur samsamaði sig vel hefðbundnum kenningaratriðum og
sótti kirkju umtalsvert betur en aðrir. Nokkuð stærri hópur eða 42% svarenda