Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1978, Blaðsíða 26
24
„Ef nú Morten ætti eins gott hús og eg, hvorn okkar mundirðu
þá kjósa?“
„En Morten á það ekki og eignast það ekki heldur!“
„En setjum nú svo, að hann eignaðist það?“
„Já, þá mundi eg kjósa Morten, það stendur nú svo á því, en
lifað af því getur maður ekki“.
Alla nóttina var Jörgen að hugsa um þetta. Honum bjó eitthvað
innanbrjósts, sem hann gat ekki sjálfur gert sér grein fyrir, en
ein var sú hugsun hans, sem öflugri var en ástin á Elsu; — fór
hann svo til Mortens og það, sem hann þar sagði og gerði, var
vandlega og vel ráðið, hann eftirlét honum húsið með vildarkjör-
um, en kvaðst sjálfur mundi ráða sig á skip, því það væri sér helst
hugleikið. Og Elsa kysti hann á miðjan munninn, þó henni þætti
vænna um Morten.
Morguninn eftir í bítið ætlaði Jörgen að leggja af stað. En seint
um kveldið áður verður honum hugur á að finna Morten ennþá
einu sinni; hann fer af stað og hittir á leið sinni um sandhólana
fiskimanninn gamla, leist honum ekki vel á það, að Jörgen færi
burt, kvað hann ekki einleikið hvað stúlkurnar væri vitlausar eftir
Morten. Jörgen tekur orðum hans fálega og kveður hann, gengur
svo að húsinu þar sem Morten átti heima; hann heyrir mannamál
inni fyrir og hátt talað. Morten var ekki einn. Þá runnu á hann
tvær grímur. Elsu vildi hann síst hitta og þegar hann skoðaði betur
huga sinn, þá vildi hann ekki heldur, að Morten þakkaði sér ennþá
einu sinni fyrir, og þá sneri hann aftur.
Næsta morgun bindur hann saman böggul sinn, tekur með sér
nestisstokkinn og gengur sem leið liggur um sandhólana ofan til
sjáfar; þar var greiðgengara heldur en að fara þar sem svo þungt
var fyrir fæti, enda var hin leiðin í tilbót styttri, því hann ætlaði
fyrst til Fjaltring við Bógbjarg, þar sem álabóndinn átti heima, en
því hafði hann áður lofað, að heimsækja hann.
Hafið var blátt og blikandi fagurt, kúskeljar og kuðungar nógir
lágu þar sem hann gekk með sjónum — bernsku leikföngin hans
fyrrum — og mölvaði hann þau nú óspart undir fótum sér. Á göng-
unni fékk hann blóðnasir, það var lítið atvik, en lítil atvik geta
líka dregið dilk eftir sig; tveir stórir blóðdropar féllu á ermi hans,
hann þvoði þá úr og fékk stöðvað blóðrásina og fanst honum sér