Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 4

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 4
4 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 97. árg. 2021 Pistill ritstjóra Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir Ritnefnd: Kristín Rósa Ármannsdóttir, Sölvi Sveinsson, Þorgerður Ragnarsdóttir Fagritstjóri: Þorbjörg Jónsdóttir Ritnefnd ritrýndra greina: Hrund Scheving Thorsteinsson, Sigrún Sunna Skúladóttir, Þóra Jenný Gunnarsdóttir Forsíðumynd: Heiða Helgadóttir Ljósmyndir: Heiða Helgadóttir, Hallur Karlsson, Sigríður Elín, shutterstock.com og fleiri. Yfirlestur og próförk: Ragnar Hauksson Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir - sími 821 2755 Hönnun og umbrot: Þorbjörg Helga Ólafsdóttir, Farvi / farvi.is Prentun: Litróf Tímarit hjúkrunarfræðinga Suðurlandsbraut 22, 108 Reykjavík s. 540 6400 hjukrun.is Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga „Ykkar raddir eiga að heyrast, þetta er ykkar vettvangur til að láta ljós ykkar skína ...“ Þjóðin var bólusett, sumarið kom og lífið varð aftur eins og við þekktum það fyrir heimsfaraldur, þótt veiran sem setti allt úr skorðum sé ekkert farin að eilífu og eigi eflaust eftir að valda meiri usla, þá skín sólin glatt þegar þetta er skrifað og þá er alltaf meiri gleði og grilllykt í loftinu. Nýtt tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga er á leiðinni í prentun, nýr ritstjóri hefur tekið við stýrinu og það eru breytingar í loftinu. Lesendur hafa eflaust nú þegar rekið augun í breytt útlit blaðsins, ritrýndu greinarnar fengu nýtt og ferskt útlit og forsíðan er allt öðruvísi en áður. Verðlaunaljósmyndarinn Heiða Helgadóttir fór og hitti Rannveigu Jónu Jónsdóttur, sérfræðing í gjörgæsluhjúkrun, sem er í viðtali í blaðinu, á gjörgæsludeildinni í Fossvogi og myndaði hana í hennar vinnuumhverfi. Ljósmyndin er sterk; umhverfið blákaldur raunveruleiki og gjörgæsluhjúkrunarfræðingurinn alvarlegur á svipinn, enda staðan í heilbrigðiskerfinu á Íslandi grafalvarleg eins og margsinnis hefur komið fram í fréttum. Í þessu tölublaði er einmitt fræðigrein sem ber heitið Engum er hjúkrað ef enginn hjúkrar: Stóra vandamál stjórnandans, að tryggja faglega mönnun til framtíðar, þar kemur fram að heilbrigðiskerfið okkar er fast í vítahring manneklu og sums staðar þannig að gengur nærri gæðum og öryggi skjólstæðinga og starfsfólks. Hvet alla til að lesa þessa grein. En ég vil þakka hlýlegar móttökur þegar ég hóf störf fyrir stuttu, það er góð tilfinning að byrja á nýjum vinnustað og upplifa góðan starfsanda og kynnast góðu fólki; bæði hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, og eins öllu því faglega fólki sem fyllir ritstjórnir blaðsins; það er fólkið sem hefur faglegu þekkinguna sem ég hef ekki. Ég er ekki hjúkrunarfræðingur, það má alveg segja að ég komi úr allt annarri átt; glanstímaritaheiminum, þar sem áherslan er eilítið meiri á umbúðirnar en innihaldið, ef við getum orðað það þannig. Ég ritstýrði Húsum og híbýlum; tímariti um hönnun og heimili, í níu ár. Nú er ég komin nær kjarnanum; Tímarit hjúkrunarfræðinga leggur áherslu á innihaldið en margir eru hissa og sjá ekki tenginguna. Hvernig er hægt að ritstýra glanstímariti um hönnun og fara svo að ritstýra fagtímariti hjúkrunarfræðinga? Jú, það er áskorun; spennandi áskorun sem ég tek fagnandi. Ég mun leggja metnað minn í að búa til tímarit sem hjúkrunarfræðingar vilja lesa og hafa auk þess gagn og gaman að. Ykkar raddir eiga að heyrast, þetta er ykkar vettvangur til að láta ljós ykkar skína og því vil ég endilega heyra frá ykkur ef þið eruð með hugmynd. Ekki hika við að senda mér línu á sigridur@hjukrun.is En ef ég lærði ekki hjúkrunarfræði, hvað þá? Ég ætlaði alltaf að verða ljósmóðir, það var bernskudraumurinn, mér fannst það fallegasta og merkilegasta starf í heimi og finnst það enn þá. Örlögin leiddu mig hins vegar á aðra braut því hugmyndavinna og skrif réðu för en fyrsta ljóðabókin mín var handskrifuð jólagjöf til mömmu og pabba þegar ég var tíu ára. Þau sögðu mér alltaf að heillavænlegast fyrir mig væri að fylgja hjartanu; læra eitthvað tengt því sem ég hefði ástríðu fyrir. (Kannski var það líka vegna þess að ég var svo spítalahrædd sem barn að ég endaði í sálfræðimeðferð til að komast yfir hræðsluna). Niðurstaðan varð því mannfræði og svo fjölmiðlafræði, blanda sem hentar ástríðu minni fullkomlega og ég er því alsæl í nýju ritstjórastarfi. Ég fékk grafískan hönnuð, hana Þorbjörgu Ólafsdóttur hjá Farva, í lið með mér til að breyta útliti blaðsins. Innihaldið er að sjálfsögðu aðalatriðið en allt hitt skiptir líka máli; litaval, letur, ljósmyndir, grafískar myndir, pappírinn og uppsetninginn. Smáatriðin eru aðalatriðin segi ég stundum því ef nostrað er við öll smáatriðin smellur heildin betur saman og aðalatriðin ná betur í gegn. Þið munuð sjá fleiri breytingar á blaðinu í næstu tölublöðum og mikið vona ég að ykkur líki þær og lesið blaðið upp til agna. Annars skrapp ég í Nauthólsvík um daginn og fylgdist þar með nokkrum hressum hjúkrunarfræðingum labba út í ískalt Atlantshafið og taka sundsprett meðan ég sat í kappklædd í fjörunni og dáðist að þeim. En núna er tækifærið, það er sumar, sól og frí framundan. Ég ætla að láta vaða út í kaldan sjóinn og synda með fiskunum, vera nagli eins og hjúkrunarfræðingarnir sem hittast alltaf á mánudögum, kannski ég fái bara að fljóta með þeim, það væri gaman! Gleðilegt sumarfrí kæru hjúkrunarfræðingar, vonandi getið þið notið þess og hlaðið batteríin í leiðinni.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.