Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Side 30
30 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 97. árg. 2021
500 metra í sjónum og vorum þá um 15-20 mínútur ofan í. Við
féllum alveg kylliflatar fyrir sjósundinu og vorum ákáfar í að
bera út boðskapinn um hvað sjósund væri æðislegt. Fyrr en
varir var kominn góður hópur úr vinnunni og þeim hefur öllum
fundist þetta æðislegt. Tvær úr hópnum voru aðeins byrjaðar
að prufa köld böð og sjósund en annars voru þetta allt konur
sem höfðu aldrei prófað sjósund áður.
Hvernig gengur þetta fyrir sig þegar þið hittist í
Nauthólsvíkinni?
Við byrjum alltaf á að fara í heita pottinn í svona korter, svo
förum við í sjóinn. Oft förum við fyrst í lónið, sérstaklega
yfir vetrartímann þegar sjórinn er í kringum núll gráður,
svo förum við aftur í pottinn og svo í sjóinn. Hvað við erum
lengi er mjög misjafnt, það fer eftir hitastigi, dagsforminu og
fleiru. Sjósundið datt aðeins niður í heimsfaraldrinum en við
erum byrjaðar að venja okkur við aftur. Áður en covid skall á
miðaði ég við 4 gráður; synti þá að kaðli, það eru um það bil
250 metrar. En ef sjórinn er heitari, í kringum 10 gráður, er ég
oft 15-20 mínútur í sjónum og stundum lengur, það fer allt
eftir veðrinum. Ef það er sól og blíða er ég lengur og ef það
er háflóð og stórstreymt er ég líka lengur ofan í því þá er svo
mikil „mýkt“ í sjónum og maður finnur svo vel fyrir orkunni í
hafinu miðað við þegar það er háfjara.
Hvort vegur meira félagsskapurinn eða sundið í sjónum?
Ætli það sé ekki nokkuð jafnt. Fyrir mig er það öll orkan sem
ég fæ úr hafinu. Ég hef líka prófað að synda í vötnum en mér
finnst það ekki sama upplifunin. Ég hef heldur engan áhuga
NÖFN
HAFMEYJANNA
Harpa Sóley Snorradóttir
Ragna Dóra Rúnarsdóttir
Helga Gunnarsdóttir
Ásta Ingibjörg Þorsteinsdóttir
Halla Grétarsdóttir
Kristín Sif Árnadóttir
Hrönn Stefánsdóttir
Sigrún Þorsteinsdóttir
Sjósund
Allar nema Ásta starfa á deild 11B, dag- og
göngudeild krabbameinslækninga. Ásta er á 11EG
sem er legudeild blóð- og krabbameinslækninga.
„Sumar okkar taka
öndunaræfingar og vilja ekki
láta tala við sig á meðan þær
eru að einbeita sér.“