Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 76

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 76
76 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 97. árg. 2021 áföllum oftar í eigin garð, en hjá þeim sem höfðu upplifað eitt áfall beindist reiðin meira að öðrum (Hagenaars o.fl., 2011). Úrvinnsla áfalla Afleiðingar sálrænna áfalla eru einstaklingsbundnar þar sem fólk tekst á við þau á margbreytilegan hátt. Talið er að ýmsir þættir geti stuðlað að því að fólk nái frekar að vinna sig út úr áföllum. Til að mynda hefur lífsánægja jákvæð áhrif á andlega sem líkamlega heilsu. Að sama skapi eykur lítil lífsánægja hættuna á þunglyndi, kvíða og á sállíkamlegum einkennum, s.s. ófullnægjandi svefni, takmarkaðri virkni, verkjum og slæmri líkamlegri heilsu almennt (Strine o.fl., 2008). Rannsóknir á tengslum milli ákveðinna persónueinkenna og þroska eftir áfall hafa á hinn bóginn sýnt að seigla virðist hjálpa fólki að ná sér aftur, eftir mjög streituvaldandi atburði í lífinu (Beutel o.fl., 2017; Fletcher og Sarkar, 2013). Jákvæð persónueinkenni, eins og hreinskilni og að kunna góð bjargráð, eru einnig eiginleikar þeirra sem ná frekar þroska eftir áföll (Mattson o.fl., 2018). Samvinnuþýði, samviskusemi, mannblendni, víðsýni og það að vera opinn og tilbúinn að móttaka félagslegan stuðning hefur forspárgildi fyrir þroska eftir áfall (Owens, 2016; Staugaard o.fl., 2015). Íslensk rannsókn framkvæmd með djúpviðtölum við 12 einstaklinga um hvernig þeir lærðu að lifa með áföllum og ná vexti í kjölfar þeirra sýnir að úrvinnsla áfallanna hjálpaði þeim mest. Þar vó þyngst að fá tækifæri til að greina frá líðan sinni eftir áfall við fagmann sem sýndi þeim umhyggju, hlýju, stuðning og traust (Hulda Sædís Bryngeirsdóttir o.fl., 2016). Þessar niðurstöður sýna mikilvægi þess að fólk fái hjálp við úrvinnslu sálrænna áfalla til að koma í veg fyrir alvarlegan heilsubrest. Dáleiðslumeðferð við úrvinnslu áfalla Úrvinnsla áfalla er mikilvæg því hún getur leitt til andlegs vaxtar og þroska (Jiang o.fl., 2017). Hægt er að leita ýmissa leiða við að vinna úr áföllum og er dáleiðslumeðferð ein þeirra. Við dáleiðslu verður breyting á vitundarástandi einstaklingsins og taugavirkni, þar sem einbeiting og tilfinningastjórnun eykst og sjálfsmeðvitundin minnkar (Jiang o.fl., 2017). Í þessu hugarástandi opnast fyrir undirvitundina þar sem hægt er að vinna með tilfinningar og reynslu einstaklingsins (Williamson, 2019). Fræðileg samantekt O’Toole og félaga (2016), þar sem skoðaðar voru sex rannsóknir meðal 391 þátttakenda, sýndi að dáleiðsla er áhrifarík meðferð við afleiðingum sálrænna áfalla. Í dáleiðslu er hægt að kalla fram minningar af atburðum sem valdið hafa áfalli sem skjólstæðingur hefur bælt niður. Unnið er með tilfinningarnar sem tengjast áfallinu og einstaklingnum hjálpað að hafa stjórn á aðstæðum til að draga úr kvíða (O’Toole o.fl., 2016). Dáleiðsla hefur reynst árangursrík við mörgum líkamlegum og andlegum einkennum sem geta verið afleiðingar sálrænna áfalla, svo sem verkjum, iðraólgu, kvíða, þunglyndi, geðsjúkdómum og sállíkamlegum einkennum (Bowker og Dorstyn, 2016; Cowen, 2016; Taylor og Genkov, 2019; Thompson o.fl., 2019). Dáleiðsla hefur einnig reynst vel við spennuhöfuðverk og mígreni sem eru algengir fylgifiskar langvarandi streitu (Ahmadi o.fl., 2018). Hún er góð til að vinna með fælni, auka sjálfstraust og til að bæta frammistöðu á ýmsum sviðum en það er afar mikilvægt við úrvinnslu áfalla (Yager, 2009). Íslensk viðtalsrannsókn Ólafar Unnar Sigurðardóttur (2008), meðal sex einstaklinga sem fengu dáleiðslumeðferð við alvarlegu þunglyndi og sjálfsvígshugsunum, sýndi einnig að dáleiðslumeðferð er gagnleg leið til að bæta andlega líðan. Þátttakendur lýstu meiri kjarki og tilfinningastjórn, betri hvíldartilfinningu, auknum innri styrk, rósemi og sjálfsöryggi. Þeir upplifðu einnig að þeir næðu að sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum sem leiddi til betri skilnings. Að hafa trú á sjálfum sér skiptir höfuðmáli ef ætlunin er að ná árangri í því sem menn taka sér fyrir hendur. Líkur á árangri aukast ef fólk trúir því að hægt sé að dáleiða það (Hunter, 2015). Faglegur stuðningur meðferðaraðilans í formi umhyggju og trausts skiptir einnig miklu máli til að ná vexti í kjölfar áfalls (Hulda Sædís Bryngeirsdóttur o.fl., 2016; Ólöf Unnur Sigurðardóttir, 2008). Erlendar rannsóknir hafa sýnt að dáleiðslumeðferð hefur reynst vel við ýmsum heilsufarskvillum en mikill skortur er á íslenskum rannsóknum á dáleiðumeðferð. Dáleiðsla hefur lítið verið notuð innan heilbrigðiskerfisins hér á landi en þar sem dáleiðsla er nú viðurkennd hjúkrunarmeðferð samkvæmt skráningarkerfi Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN, 2019) er mikilvægt að gera frekari rannsóknir innan hjúkrunar. Vonin er að hægt verði að bjóða upp á dáleiðslumeðferð í auknum mæli í áfallamiðaðri þjónustu og er aukin þekking á viðfangsefninu forsenda fyrir eflingu slíkrar þjónustu. Þetta er fyrsta íslenska eigindlega rannsóknin á dáleiðslu sem unnin er meðal hjúkrunarfræðinga. Einnig er þetta fyrsta íslenska rannsóknin þar sem sérstaklega er skoðuð reynslan af úrvinnslu sálrænna áfalla með dáleiðslumeðferð. Tilgangur rannsóknar og rannsóknarspurning Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða reynslu fólks af dáleiðslumeðferð við afleiðingum sálrænna áfalla, með það að markmiði að auka þekkingu og dýpka skilning á því. Rannsóknarspurningin var: Hver er reynsla fólks af dáleiðslumeðferð við afleiðingum sálrænna áfalla? Til að svara rannsóknarspurningunni var aðferð Vancouvers- skólans innan fyrirbærafræðinnar notuð því hún hentar vel fyrir tilgang og markmið rannsóknarinnar. Aðferðinni er ætlað að bæta mannlega þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu, og gengur út frá því að hver og einn sjái veröldina með sínum augum og sinni reynslu og eigin túlkun á þeirri reynslu. Markmiðið er að rannsakandinn fái fram góða heildræna mynd af reynslu þátttakenda. Áherslan er á að dýpka skilning og auka þekkingu á mannlegri reynslu. Til að ná fram góðri heildrænni mynd þarf rannsakandinn að mynda ákveðin tengsl við þátttakendur, liggja yfir gögnunum og verja miklum tíma í gagnagreiningu. Aðferðin byggist á 12 þrepa ferli (tafla 1) sem unnið er eftir og meðan á rannsókninni stendur er sjö þrepa vitrænu ferli fylgt (mynd 1) síendurtekið í hverju þessara 12 þrepa (Sigríður Halldórsdóttir, 2016). AÐFERÐ „Þetta breytti lífi mínu“

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.