Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Síða 28
28 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1 . tbl. 99. árg. 2023
Hver er ímynd hjúkrunarfræðinga hér á landi að þínu
mati?
Ég held að ímynd hjúkrunarfræðinga fari mikið eftir því á
hvaða tímapunkti þú spyrð fólk út í hana. Þeir sem hafa
verið í nálægð við störf hjúkrunarfræðinga, hvort heldur sem
sjúklingur eða aðstandandur, telja störf hjúkrunarfræðinga
mikilvæg og ímyndin er jákvæð. Þegar umræðan fer að snúast
um kjaramál og annað er ímyndin hins vegar oft önnur og
neikvæðari. Þegar fólk talar um einstaka hjúkrunarfræðinga
er það oftast mjög jákvætt en ég tek eftir að það er oft meiri
neikvæðni þegar talað er um stéttina eða hjúkrunarfræðinga
sem heild.
Hvernig sérðu hjúkrunarfræði sem fag þróast á næstu
árum og áratugum?
Ég held að það verði meiri sérhæfing í hjúkrun í framtíðinni.
Ég fékk einkennilega spurningu á Bylgjunni um daginn þar
sem spurt var hvort hjúkrunarfræðingar væru farnir að skipta
sér meira af störfum lækna, ég held að það sé ekki rétt og
lít þannig á að það sé frekar um að ræða meira samtal og
samstarf á milli þessara stétta en áður var. Ég tel að það
sé jákvætt að þessar tvær stéttir vinni meira saman, við
vitum hvert mikilvægi lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra
heilbrigðisstétta er og þetta er engin keppni. Þessar stéttar
mega ekki horfa hver til annarrar út frá því hvort ein stéttin sé
mikilvægari en önnur.
Nú eru karlmenn hærra hlutfall af hjúkrunarfræðingum
í mörgum öðrum löndum en hér á landi, hvers vegna
heldur þú að við séum enn þá föst í fornöld þegar kemur
að því að vera karlmaður í hjúkrunarfræði?
Ég held að svarið við þessari spurningu sé einfalt. Ég held að
margir ungir strákar sem eru að hugsa hvað þeir ætli að verða
þegar þeir verða stórir leiði einfaldlega ekki hugann að því að
hjúkrun gæti verið fyrir þá, að það sé möguleiki í stöðunni að
velja hjúkrun.
Hvernig breytum við þessu og fáum fleiri karlmenn til að
læra hjúkrunarfræði?
Við verðum að venja okkur á að tala ekki um hjúkrun sem
kvennastarf og það byrjar hjá okkur sjálfum sem tilheyrum
stéttinni. Það þarf að breyta hugsunarhættinum.
Hefur þú skoðun á mönnunarvandanum og hvernig væri
mögulega hægt að leysa hann?
Það þarf leysa hann og ég ætla ekki að þykjast vera með neina
töfralausn en við getum byrjað á að skrifa undir kjarasamning
sem hjúkrunarfræðingar eru sáttir við og fer ekki í gerðardóm.
Viðtal
„Það þarf leysa hann og ég
ætla ekki að þykjast vera
með neina töfralausn en við
getum byrjað á að skrifa
undir kjarasamning sem
hjúkrunarfræðingar eru sáttir
við og fer ekki í gerðardóm.“
Hver er draumurinn?
Eltast ekki endalaust við hamingjuna heldur finna hana og
það er ég að gera.
Að lokum hvaða áhugamál áttu sem efla andann og
næra sálina?
Útivist og hreyfing eins klassískt og það hljómar. Ég er í crossfit
og fæ ágætis útrás þar en við ræðum þetta oft á geðdeildinni
þar sem ég starfa að ef grunnþættirnir, svefn, hreyfing og
mataræði eru í lagi þá fylgir oftast andlega heilsan með þegar
maður er með gott fólk í kringum sig.