Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Page 30

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Page 30
30 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1 . tbl. 99. árg. 2023 Umfjöllun Söguleg verkföll í Bretlandi Þegar þessi grein er skrifuð eru liðnir meira en 100 dagar frá því verkföll hjúkrunarfræðinga í Bretlandi voru boðuð og enginn endir virðist vera í sjónmáli. Kröfur hjúkrunarfræðinga snúa fyrst og fremst að bættum kjörum og að mönnun ógni ekki öryggi. Rúmlega 300 þúsund hjúkrunarfræðingar starfa í Bretlandi og í hverjum aðgerðum leggja þúsundir niður störf. Fleiri stéttir eru einnig í verkföllum í Bretlandi, þar á meðal sjúkraflutningamenn. Bresk stjórnvöld hafa boðið 1.400 punda launahækkun á ári, eða tæpar 249 þúsund íslenskar krónur, deilt niður á tólf mánuði sem gera tæpar 21 þúsund krónur á mánuði. Þetta telja hjúkrunarfræðingar þar í landi alls ekki nóg og hafa vísað til verðbólgu sem mælist fimm prósentustigum hærri en launahækkunin ásamt því að álag fari sífellt vaxandi. Eru kröfur þeirra um fimm prósenta hækkun launa umfram verðbólgu sem mælist um tíu prósent. Ekki sest að samningaborðinu Fyrstu verkföllin hófust á 44 stöðum á Englandi, Norður- Írlandi og í Wales um miðjan desember, 55 stöðum í janúar og 73 stöðum í febrúar. Verkföllin eru ekki bundin öryggismönnun, líkt og þekkist á Íslandi, heldur voru einstaka deildir undanskyldar verkföllunum, þar á meðal vökudeildir, himnuskiljun, krabbameinsdeildir og gjörgæsludeildir. RCN hefur aðeins átt í óformlegum viðræðum við stjórnvöld og hafa lýst þeim sem óviljugum til að setjast að samningaborðinu. Til stendur að bæta í verkföllin í marsmánuði og er stefnt að því að enn fleiri staðir, allt að helmingur sjúkrahúsa NHS, verði óstarfhæfir í þrjá daga í einu. Þá verða gjörgæslu- og krabbameinsdeildir ekki lengur undanskyldar verkfallinu. Hjúkrunarfræðingar sem taka þátt í verkföllum hafa getað sótt um 50 pund fyrir hvern dag í verkfallssjóð RCN, verður sú tala hækkuð í 80 pund í mars auk 120 punda fyrir þá sem taka fjóra eða fleiri daga í röð í verkfalli. Hækkun þýðir skert þjónusta Ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar hafa sakað hjúkrunarfræðinga um að stefna lífum sjúklinga í hættu með aðgerðum sínum. Steve Barclay heilbrigðisráðherra hefur ítrekað sagt að ekki sé hægt að hækka laun hjúkrunarfræðinga meira. Ef launakostnaður hækkaði þýddi það að skera þyrfti niður í þjónustu við sjúklinga, þar að auki myndi það auka verðbólguna í landinu. Nadhim Zahawi, formaður Íhaldsflokksins, sem myndar ríkisstjórnina, gagnrýndi hjúkrunarfræðinga harðlega í byrjun desember og sagði að verkföll myndu einungis stuðla að sundrun Vesturlanda sem yrði vatn á myllu Vladímír Pútín Rússlandsforseta í stríðinu í Úkraínu. Pat Cullen, framkvæmdastjóri RCN, hefur biðlað til stjórnvalda að semja og harmar að verkföllin þurfi að halda áfram. „Við erum einungis að þessu til að fá stjórnvöld til að bjarga heilbrigðisþjónustunni. Það þarf að viðurkenna að þúsundir stöðugilda eru ómannaðar sem bitnar á sjúklingum,“ sagði Cullen um miðjan febrúar. „Við höfum rétt stjórnvöldum sáttarhönd og boðist til að slaka á kröfum til að geta hafið formlegar viðræður, við erum enn opin fyrir því.“ Ánægð með stuðning frá Íslandi Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsti yfir stuðningi við aðgerðir RCN sama dag og þær voru tilkynntar, félagið skrifaði einnig undir sameiginlega stuðningsyfirlýsingu Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN). Cullen þakkaði fyrir stuðninginn í bréfi til Fíh, sagði hún ákvörðunina um verkföll ekki vera auðvelda en það sýni viljann til að laga mönnunarvandann, bæta nýliðun og auka öryggi. „Við erum stolt að standa saman með öðrum félögum og samtökum hjúkrunarfræðinga til að bæta starfsumhverfi, taka umræðuna um mönnunarvanda og tryggja leiðtogahlutverk hjúkrunarfræðinga um allan heim,“ segir í bréfi Cullen. „Við erum sterkari saman og erum staðráðin í að vinna saman að réttlæti fyrir fagið okkar og skjólstæðinga.“ Fíh mun áfram eiga í reglulegum samskiptum við fulltrúa RCN sem vita af stuðningnum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Í byrjun nóvember síðastliðnum boðuðu Samtök breskra hjúkrunar- fræðinga, Royal College of Nursing (RCN), verkfallsaðgerðir í fyrsta sinn í 106 ára sögu samtakanna. Verkföllin eru innan bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS og samanstanda af verkföllum á einstaka svæðum eða starfstöðvum í takmarkaðan tíma. Texti: Ari Brynjólfsson | Myndir: RCN/Duncan Soar.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.