Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Side 48

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Side 48
48 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 99. árg. 2023 Landsbyggðin að stimpla mig út klukkan fjögur á daginn en ef það fæst ekki hjúkrunarfræðingur á til dæmis kvöldvakt tek ég vaktina. Okkur vantar hjúkrunarfræðinga og erum því miður að ganga hart á þá sem eru starfandi hérna. Deildastjórinn á sjúkradeildinni sér að mestu sjálf um morgunvaktirnar og ég tek svo reglulega morgunvaktir líka því við nýtum mannskapinn betur þannig.“ Hvað eru margir hjúkrunarfræðingar starfandi á Blönduósi? Á fyrstu hæðinni er heilsu- gæslan en þar er deildarstjóri ásamt þremur öðrum hjúkrunarfræðingum. Einn þeirra starfar líka á HSN á Skagaströnd sem er undir okkar hatti. Við erum svo með blandaða deild þar sem eru þrjú sjúkrarými, níu dvalarrými og 22 hjúkrunarrými og erum við yfirleitt með einn hjúkrunarfræðing á vakt hverju sinni eins og staðan er í dag. Næturvaktirnar þurfum við því miður of oft að manna með bakvöktum sem ég vona að breytist sem fyrst. Á þeirri deild starfa þrír hjúkrunarfræðingar sem eru búsettir á Blönduósi, ásamt deildastjóra, auk þess eru tveir hjúkrunarfræðingar sem koma að norðan og taka helgar einu sinni í mánuði.“ Hverjar myndir þú segja að væru helstu áskoranir þínar í þessu starfi? „Manneklan er mikil áskorun og það sem er mest krefjandi við starfið. Þetta reddast viðhorfið er samt svo ríkjandi, starfsfólkið hjálpast að og allir leggjast á eitt við að láta starfsemina ganga en það væri óskandi að það kæmu fleiri til starfa hjá HSN, tímabundið eða til lengri tíma,“ svarar hún af hreinskilni og ljóst að mönnunarvandinn er víða. Loksins komin með yfirsýn til að þróa betra verklag Helga Margrét kann vel við sig í tæplega þúsund manna bæjarfélaginu. Hún segir að reynslan hafi sýnt sér að sem hjúkrunarfræðingur á minni stað fái hún fjölbreyttari verkefni en á stöðum þar sem deildir eru sérhæfðari og það finnst henni frábært. „Á minni stað eru alls konar áskoranir, ef okkur vantar til dæmis blóð þurfum við að panta það að norðan eða sunnan og það kemur jafnvel til okkar með strætó. Við getum ekki planað blóðgjafir samdægurs og öll sýni eru send annað í rannsóknir, eins er með röntgenmyndir. Starfsfólkið þarf því að vera úrræðagott því verkefnin eru svo fjölbreytt og alls konar.“ En hvernig er hægt að gera starfsumhverfið á landsbyggðinni meira aðlaðandi fyrir hjúkrunarfræðinga? „Mér finnst nú þegar aðlaðandi að vinna úti á landi, það er ákveðin stemning og dýrmæt reynsla. Ég held við þurfum að koma því í umræðuna hversu aðlaðandi og auðvelt það í rauninni er. Þetta er minna mál en margir halda og það er líka reynt að laða fólk að með því að gera flutninginn auðveldari, t.d með því að redda húsnæði og leikskólaplássi,“ segir hún hress í bragði. Eftir um það bil ár í starfi yfirhjúkrunarfræðings er ekki úr vegi að spyrja Helgu Margréti hvort hún hafi komið með nýjar áherslur og breytt verklag? „Ég heyri það frá samstarfsfólki mínu að ég sé mjög fræðileg, ég nýti fræðin til dæmis í starfsmannahaldi og skipulagningu. Ég hef nýtt tímann síðan ég tók við til að komast inn í allt hérna og mér finnst ég loksins vera komin með þá yfirsýn sem ég þarf til að vinna að betra verklagi. Nú er ég til dæmis að vinna að skýrari verkferlum og að því að straumlínulaga starfsemina og nýti mér þekkingu sem ég öðlaðist í náminu til þess.“ Aðspurð um framtíðarplönin, hvort hún stefni á frekara nám segist hún telja það nokkuð öruggt að hún muni mennta sig svo lengi sem hún lifir. „Ég er háð því að læra nýja hluti. Núna er planið hjá mér að sækja um hagnýtt diplómanám í rekstrarfræði í Háskólanum í Reykjavík því það nám mun nýtast mér vel í starfi. Eftir það langar mig að byrja í doktorsnámi,“ svarar hún og nokkuð ljóst að yfirhjúkrunarfræðingurinn á Blönduósi ætlar ekki að sitja auðum höndum á næstu árum. Þá að lokum verðum við að vita hvernig ung kona í krefjandi starfi, með marga bolta á lofti í lífinu slakar á og nærir andann? „Ég fæ mikið út úr því að dunda með börnunum mínum þegar ég kem heim úr vinnunni á daginn, kubba eða skreppa út í ferska loftið að róla. Svo erum við hjónin mjög meðvituð um að forgangsraða tíma fyrir okkur sjálf og svo tíma fyrir hvort annað. Ég reyni að hreyfa mig reglulega og tek gjarnan teygjur og núvitund í gufu og fer svo í heitan pott á eftir. Svo finnst mér gæðastundir með fólkinu í lífinu mínu algjört vítamín fyrir sálina. Sameiginlegt áhugamál hjá okkur hjónunum er að fara á rokktónleika og við reynum að gera það eins oft og við getum,“ segir Helga Margrét og við kveðjumst enda búnar að eiga gott spjall. Helga Margrét og Hildur Ósk Rúnarsdóttir, hjúkrunarfræðingar hjá HSN. Með þeim er Helga Margrét Jóhannesdóttir, amma Helgu, sem býr á hjúkrunardeildinni á HSN á Blönduósi. Hún er 100 ára gömul en Helga Margrét fékk hana til að flytja á Blönduós á síðasta ári en hún hafði búið heima hjá sér á Akureyri fram að því.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.