Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Side 67
1. tbl. 99. árg. 2023 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 67
Þörf fyrir hjúkrunarþjónustu
Þörf fyrir hjúkrunarfræðinga ræðst af fjölmörgum þáttum
sem hafa bein eða óbein áhrif á störf þeirra og starfsumhverfi.
Meðal þessara þátta er mannfjöldi og samsetning hans,
almennt heilsufar og félagsleg staða landsmanna, þróun
meðferða, stefna stjórnvalda, gildandi lög og reglugerðir,
ákvörðunum stjórnmála- og sveitarstjórnarmanna um
forgangsröðun og ráðstöfun fjármagns og framboði á annarri
heilbrigðis- og félagsþjónustu (Annesley, S.H. 2019).
Almenningur gerir sífellt meiri kröfur um aukin gæði og
framboð á heilbrigðisþjónustu, á sama tíma og virk þátttaka
sjúklinga í ákvarðanatöku sem snýr að eigin meðferð verður
algengari (Freitas, Silva, Minamisava, Bezerra, & Sousa,
2014). Gæði heilbrigðisþjónustu eru mæld út frá viðhorfum
og upplifun sjúklinga og fjölskyldna þeirra af þjónustunni.
Á tímum notendamiðaðrar þjónustu er hjúkrunarþjónusta
lykilþáttur í mælingum á gæðum hennar (Merkouris og félagar,
2013 og Laschinger, Hall, Pedersen, & Almost, 2005).
Þrátt fyrir að mikilvægi hjúkrunarfræðinga í heilbrigðiskerfinu
sé viðurkennt, þá hefur skortur á fjármagni og takmarkað
framboð á hjúkrunarfræðingum leitt til aukins vinnuálags,
þess að sjúklingar fái ekki þá hjúkrun sem þeir þyrftu
og erfiðleika við að manna lausar stöður (Milstein, R, &
Schreyoegg, J. 2020, Scott A. P. og félagar 2019). Svo að
finna megi farsæla lausn á þeim áskorunum, sem fylgja því
að manna stöður hjúkrunarfræðinga í samræmi við dagleg
verkefni þeirra, er mikilvægt að þekkja þá þætti sem móta
starfsumhverfi þeirra hverju sinni og meta mismunandi áhrif
þeirra (Saville, C.E. og félagar 2019).
Breytingar á starfsumhverfi og verkefnum hjúkrunarfræðinga á Landspítala á árunum 2005-2019
Aukin hjúkrunarþyngd endurspeglar að sjúklingar eru flóknari og oft
með marga undirliggjandi sjúkdóma, eins getur hún endurspeglað
aukinn bráðleika en miðað við þróun á mannfjölda annars vegar
og legudögum hins vegar má færa rök fyrir því að það séu aðeins
veikustu sjúklingarnir sem fái meðferð í innlögn. Aukin hjúkrunarþörf
kallar á aukinn mannafla í hjúkrun svo að hjúkrunarálag fari ekki yfir
ásættanlega viðmiðunarmörk.
Kalla breytingar á þyngd og formi hjúkrunarþjónustu
sjálfkrafa á breytingar á eftirspurn eftir og þörf fyrir
starfskrafta hjúkrunarfræðinga?
Breytt samfélag
Lýðfræðileg samsetning íslensks samfélags hefur breyst
mjög mikið frá upphafi þessarar aldar, en um er að ræða
breytingar sem eiga sér fá fordæmi, bæði í innlendum og
erlendu samanburði. Hér er fyrst og fremst um að ræða mikla
fjölgun aldraðra, veldisvöxt í fjölda erlendra ríkisborgara með
varanlega búsetu hérlendis, komu erlendra ferðamanna til
landsins og á allra síðustu árum sívaxandi fjölda einstaklinga
í leit að alþjóðlegri vernd. Vegna lykilhlutverks Landspítala
í íslenskri heilbrigðisþjónustu, liggur það í hlutarins eðli að
breytingar sem þessar leiði til aukins umfangs og áskorana við
útfærslu og skipulagningu hjúkrunar (American Association of
Colleges of Nursing, 2022; Graetz, V. og félagar, 2017).
Íslenska þjóðin var lengi vel tiltölulega ung í erlendum
samanburði og heilbrigðiskerfið naut góðs af því (Neuman
og félagar 2015, RegisteredNursing.org. 2022). Á síðasta
áratug hefur aldurssamsetning þjóðarinnar breyst mikið,
öldrun íslensku þjóðarinnar er í raun mun hraðari í dag en í
nágrannalöndum okkar. Stórir árgangar fólks sem fæddust á
árunum 1946-1964 svokallaðir „Baby Boomers“ skýra þessar
miklu breytingar, en þessi fjölmenni hópur er að komast á
þann aldur að þörf hans fyrir heilbrigðisþjónustu fer vaxandi.
Á árunum 2010-2020 fjölgaði 60 ára og eldri um 37%, sem
er 2-3 sinnum meiri hlutfallsleg fjölgun en annars staðar á
Norðurlöndunum. Stærð eftirstríðsárganganna má rekja til
þess að frjósemi íslenskra kvenna var lengi vel með því mesta
sem gerðist í Evrópu. Sem dæmi þá var frjósemi íslenska
kvenna tæp fjögur lifandi fædd börn á hverja konu á árunum
1950-1960 á meðan konur annars staðar á Norðurlöndunum
eignuðust að meðaltali rétt rúmlega tvö börn. Útfærsla og
veiting heilbrigðisþjónustu vegna hraðrar öldrunar tengdri
fjölmennum árgöngum eftirstríðsáranna er mikil áskorun
fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi, áskorun sem mun vera til
staðar næsta áratuginn (Nordic Statistics, 2022 og Neuman,
2015). Svo virðist því sem Íslendingar standi nú frammi fyrir
viðfangsefni sem nágrannalönd okkar voru að kljást við í lok
síðustu aldar. Þó má færa fyrir því rök að verkefnið sé jafnvel
enn stærra hér á landi þar sem meðal ævilengd er lengri í dag
en hún var þegar nágrannaþjóðir okkar stóðu frammi fyrir
þessu verkefni. Sem dæmi má nefna að ævilengd íslenskra