Heilbrigt líf - 01.12.1949, Qupperneq 58
að reyna að liðka sig með því að ganga fram og aftur um
hlaðið. Ég saknaði tunglsins. Það var einhvers staðar hulið
á bak við þykk ský, og stjörnurnar höfðu víst tekið á sig
náðir. Ég hafði veður af bæjarþiljunum og ráfaði vestur
fyrir kampinn, átti þar einskis ills von. En allt í einu
stakk ég ósjálfrátt fyrir mig fæti og hrökk aftur á bak.
Einhver ógnarsorti og undarlegt skvaldur stanzaði mig.
Ég sá ekkert nema blásvart Ginnungagap, þegar ég sté
þarna með hálfan fótinn fram af þverhníptum kletti og
eins og kastaðist til baka um leið. Mér fannst sem einhver
vættur væri þarna, en enga mynd sá ég, og ekkert orð
heyrði ég. Ég fékk hjartslátt og hraðaði mér frá þessum
ósköpum heim að bæjardyrunum, og þá kom pilturinn með
kertaljós í hendinni og bauð mér inn.
Nú fór ég að stumra yfir blessuðu barninu, sem var
lærbrotið og bar sig illa að vonum. Brotið var nokkuð úr
lagi gengið. Ég togaði í gangliminn, þar til brotið komst
í sæmilegar stellingar, því að hvorki mátti verða stytting
né hlykkur á fætinum, svo að pilturinn gæti gengið óhaltur
síðar meir. Svo voru lagðar við spelkur og annar umbún-
aður. Það var reynt að hagræða barninu eftir föngum.
Hresstist það, hætti að gráta og sofnaði. En þegar að-
gerðinni var lokið, fann ég, að ég var dauðþreyttur, sem
von var, eftir tuttugu og tveggja klukkutíma strangasta
erfiði. Nú hefði eitthvað af þessum tíma verið kallað eftir-
vinna, sem ekki þekktist þá, að minnsta kosti ekki austur
á Langanesi. Lakast var, að hæpið virtist, að öll þessi fyrir-
höfn kæmi að fullu gagni, því að miklar líkur voru til, að
umbúðirnar mundu blotna og haggast, og gat naumast
hjá því farið, að skekkja eða bugða kæmi á hinn brotna
lim.
Ég var að hugsa um, hve það var óskaplega erfitt og
ófullnægjandi að sækja lækni svona langa leið í staðinn
fyrir að reyna að flytja sjúklinginn til læknis. En þetta
56
Heilbrigt líf