Goðasteinn - 01.03.1970, Blaðsíða 16
þurfti að búast við móttöku þeirra í borðbúnaði, rúmfatnaði og
matföngum. Sá móðir mín því vel borgið. Baðstofukjallarinn var
stór og góður, og í honum sváfum við, heimilisfólkið, meðan
fundarhaldið stóð yfir, sem venjulega voru þrír til fjórir dagar.
Fulltrúarnir, sem lengst áttu að sækja, þeir Jón Einarsson í
Hemru og Einar Brandsson á Reyni, dvöldu stundum hjá okkur
í viku, eftir því, hvernig veðri og færð var háttað. Kvenfólkið í
Hala hafði mikið að gera þessa daga, og þetta var leiðindastamp
og þó þótti manni gaman að því. Félagsfundir voru líka haldnir
á vorin seinni árin.
Komur Þorvalds á Þorvaldseyri eru mér minnisstæðar. Það var
eins og kóngur væri að koma, þegar hann var á ferð. Hann var
alltaf vel hestaður og rak lausahestana á undan sér. Heyrðist vel,
þó komin væri dimma, hver var á ferð, þegar Þorvaldur reið heim
að bænum. Líka sópaði að Ólafi Pálssyni umboðsmanni á Höfða-
brekku. Hann var jafnan vel hestaður, og báðir voru þeir Þor-
valdur höfðinglegir og ábúðarmiklir.
Margir umrenningar, sem kallaðir voru, gistu oft heima í Hala.
Ég man vel eftir Jóhanni sólskjöld, Jóhanni bera, Guðmundi dúll-
ara, Eyjólfi tónara og Ögmundi flóka, svo einhverjir séu nefndir.
Ögmundur sat einu sinni hjá okkur yfir jólin. Ekki væri rétt að
hafa bréfa-Runólf í þessum hópi, en oft gisti ihann margar nætur
heima, þegar hann var í bréfaferðum sínum um vertíðina. Einatt
var hann líka fyrr á ferð, t. d. um nýárið. Hann hafði mesta
ánægju af því að taka í spil.
Mikið var sungið og dansað í stofunni í Hala. Það var til
harmonika, og ýmsir kunnu með hana að fara: Halldór Jónsson
vinnumaður, Sigurður Vigfússon bróðursonur mömmu, sem var
alinn upp heima, og snemma vandist ég við að spila á hana,
og sama máli gegndi um Gunnar bróður.
Skammdegiskvöld í roki og rigningu vorum við að dansa inni
í stofu. Var þá bankað í gluggann. Farið var til dyra að taka á
móti gestum, sem voru Ólafur Guðmundsson læknir á Stórólfs-
hvoli, Guðmundur Guðmundsson uppeldissonur hans og Kjartan
Ólafsson bóndi í Þúfu í Landeyjum. Þeir báðust gistingar, sem
14
Goðasteiwi