Goðasteinn - 01.03.1970, Síða 17
auðvitað var velkomin. Ólafur læknir var mikill vinur okkar
systkinanna. Hann pungaði oft í okkur sætindum, þegar hann var
á ferð. Kjartan var líka góður kunningi okkar allra og sérstaklega
vel gefinn maður, sem gaman var að tala við. Pabbi var ekki
heima þetta kvöld.
Hætt var að dansa, gestunum var boðið til stofu, tekin af þeim
vosklæði og þeim unninn beini. Eftir matinn spurði Ólafur læknir
mömmu, hvort henni væri ekki sama, þótt fólkið kæmi fram í
stofu aftur og stigi dans stundarkorn. Það var sjálfsagt, og Ólafur
læknir dansaði með okkur fram á nótt; hann var svo mikið fyrir
að dansa, en Kjartan sagði, að dansinn væri uppfundinn af þeim
vonda og fór inn í baðstofu til að tala við piltana, sem þar voru.
Halldór Jónsson var feykilega söngvinn og söng vel. Hann
kunni alltaf eitthvað af nýjum lögum að kenna okkur, þegar hann
kom úr verinu um lokin, og við hvert lag lærði hann bassa.
Presturinn okkar, hann sr. Ólafur í Kálfholti, var líka mikið
fyrir söng, og það kom af sjálfu sér, þegar hann gisti, að setjast
við orgelið, og allir, sem sungu, söfnuðust um það til að taka
lagið.
Samþingsmaður pabba fyrir Rangárvallasýslu var Sighvatur
Árnason í Eyvindarholti. Hann var kær gestur hjá okkur. Halldór
Jónsson sótti hann austur að Eyvindarholti, þegar leið að þingi,
og sótti pabba og hann suður, þegar þingi lauk. Mamma fylgdi
þcim suður og kom aftur með Halldóri. Þorsteinn Erlingsson skáld
var einn af góðvinum pabba og var nokkrum sinnum gestur hans
heima í Hala.
Áður hef ég minnzt á Margréti Brandsdóttur, sem var hjá
okkur í skjóli dóttur sinnar, Vilborgar Einarsdóttur. Margrét sá
fleira en fjöldinn og sagði fyrir um gestkomur og mannalát. Kvöld
nokkurt var barið bylmingshögg í eldhúshurðina. Ein stúlkan
sagði: „Þetta hefur nú verið hann Páll“, og átti við heimilismann.
„Nei“, sagði Margrét, „þetta var nú Benedikt í Unhól“. Ekki
þótti það líklegt, því frétzt hafði, að Benedikt væri veikur og
ekki ferðafær. Á sama tíma fór Ólöf Árnadóttir í Háfi út að
kirkju að ná í þvott af snúru. Sá hún þá Benedikt standa framan
Goðasteinn
15