Goðasteinn - 01.09.2013, Side 23
21
Goðasteinn 2013
Jarðir sem voru hjáleigur báru ekki allar hjáleigunafnið enda var mjög
misjafnt frá einu sveitarfélagi til annars hvaða nafnasiðir tíðkuðust. Í landeyjum
báru fjölmörg afbýli hjáleigunafnið en í næstu sveit, kringum hið fornfræga
býli Odda á Rangárvöllum, bar einungis eitt hinna sjö afbýla jarðarinnar
hjáleigunafn. Sú hét Jónshjáleiga en gekk stundum undir nafninu tröð. Hinar
hétu Oddhóll, Kumli, Kragi, langekra, dvergasteinn og Vindás. Afbýli sem
báru hjáleigunafnið í Rangárvallarsýslu voru þó flest við sjávarsíðuna eða í
láglendissveitum. Þó voru um tíma tvö afbýli frá Vatnsdal í Fljótshlíð. Í
vestanverðri sýslunni þekktist hjáleigunafnið í landsveit og í Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er getið um sex hjáleigur en einungis var
enn búið í tveimur þeirra þegar þeir félagar fóru um landið. Önnur þeirra var
Snjallsteinshöfðahjáleiga þar sem enn er búið. Síðastnefnda hjáleigan fékk nýtt
nafn árið 1952 þegar þáverandi ábúendur fengu nafnið Árbakki samþykkt.
Nýtt nafn var kannski eðlilegt í tilviki Snjallsteinshöfðahjáleigu enda nafnið
tungubrjótur hinn versti og inniheldur sjö sérhljóða. Hins vegar var hér ekki
um einsdæmi að ræða því að um líkt leyti fengu fjölmargar aðrar jarðir sem
áður báru hjáleigunafnið nýtt nafn. Sem dæmi má nefna að Kálfholtshjáleiga í
Ásahreppi varð að lækjartúni og Efri-Vatnahjáleiga í Austur-landeyjum fékk
nafnið Svanavatn. loks má nefna að árið 1962 var samþykkt nafnabreyting á
Fíflholts - Vesturhjáleigu í Vestur-Landeyjum sem varð að Lækjarbakka. Sterk
rómantísk áhrif má greina í endurskírn þessara jarða. Á þessum árum var algengt
að menn skiptu um nöfn á jörðum enda breyttust jarðargæði mjög samhliða því
sem framræsla og ræktun hófst. Verðandi stórbændum í láglendissveitunum
hefur eflaust þótt ankannalegt að búa í hjáleigu. Nú er erfitt að sjá mun þegar
litið er heim að hjáleigu og höfuðbýli og sennilegast er bændum nútímans
tiltölulega sama þótt þeir búi í hjáleigu eða koti.
Svo háttar til í Rangárþingi að bæjarnöfn sem enda á -hjáleiga eru mörg.
Nafn þetta þekkist varla norðan heiða en sunnanlands er það algengast í
Rangárvallarsýslu. Á lögbýlaskrá nútímans er hjáleigunafnið einungis að
finna á Austfjörðum, Héraði, í Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallarsýslu og
Árnessýslu. Norðanlands er hins vegar mun algengara að afbýli beri nafnið kot,
sel eða hús. Flestar eru hjáleigurnar í landeyjunum og Flóanum. Sú spurning
læðist að manni hvort sjávarnytjar hafi á einhvern hátt verið tengdar við búsetu
í hjáleigu. Spyrja má hvort bæjarþyrpingarnar í landeyjum og víðar við
suðurströndina, sem margar voru byggðar utan um höfuðbýlið sem stóð upp á
litlum hrygg eða hól, hafi verið fyrsti vísir að þéttbýli. Sú almenna söguskoðun
að bændur hafi hamlað myndun þéttbýlis er kannski ekki að öllu leyti rétt.