Goðasteinn - 01.09.2013, Page 95
93
Goðasteinn 2013
aðeins örnefni sem benti til byggðar s.s. Hjáleigubakki). Þau eyðibýli sem töld-
ust henta til frekari rannsókna í þessu verkefni voru öll farin í eyði fyrir lok
19. aldar og hefur þar af leiðandi að líkindum ekki verið raskað af vélum. Nið-
urstöður forkönnunar voru að 67 eyðibýli (45%) væru ekki sérlega hentug til
frekari rannsókna, en 82 eyðibýli (55%) töldust hentug til frekari rannsókna.
Þessar niðurstöður sýna að gríðarmiklir rannsóknarmöguleikar eru fyrir hendi
á þessu svæði. Ljóst er að svæðið við Heklurætur hentar vel til yfirgripsmikla
rannsókna sem geta fært okkur ítarlega þekkingu á þróun byggðar, daglegu lífi
og á samspili manns og náttúru á svæðinu allt frá landnámi.
Lokaorð
ljóst er að eldvirkni er aðalrót vandans sem bændur Heklubyggða hafa átt
við að etja í gegnum aldirnar. Álitamálin snúa að því hvernig fólk brást við
breytingum í umhverfinu, hvenær það sá ný tækifæri og hvenær það gafst upp.
Spurninguna mætti allt eins orða sem svo: Af hverju hélst jafnmikil byggð jafn-
lengi við Heklurætur þrátt fyrir að stór hluti ræktar- og beitarlands hafi sann-
arlega verið orðinn örfoka?
til að svara þessari spurningu er nauðsynlegt að tímasetja byggðina mun
betur en hægt er að gera á grundvelli heimilda, skráningar og gripa eins og gert
var í undirbúningsrannsókninni sem hér hefur verið kynnt. Sú nálgun gaf þó
ýmsar vísbendingar um þróun og eyðingu byggðar en er í mörgum tilfellum
of óáreiðanleg eða ónákvæm ein og sér til að hægt sé að nota hana til að þróa
kenningar um byggðaeyðingu á svæðinu.
Niðurstöður forkönnunarinnar sýna að byggðin í nágrenni Heklu varð líklega
mjög umfangsmikil strax á víkingaöld. um það vitna m.a. fjölmargir víkinga-
aldagripir sem borist hafa söfnum úr uppblæstri á þessum slóðum. Gríðarlegt
tjón hefur orðið á byggðinni í gegnum aldirnar sökum nálægðarinnar við Heklu
en ýmislegt bendir til að eyðing byggðar hafi verið mismikil eftir öldum. Tals-
verðar leifar eyðibyggðarinnar sjást enn í nágrenni Heklu en þó er mörgum af
mikilvægustu minjastöðunum, þar á meðal friðlýstum býlum, mikil hætta búin
vegna rofs og sandfoks og öll ummerki um þónokkra staði eru þegar horfin.
ljóst er að í eyðibyggðinni við Heklurætur felast miklir möguleikar til rann-
sókna. Í henni er fólginn fróðleikur um daglegt líf á þessum slóðum á fyrri
öldum, mataræði, neysluvenjur og búskaparhætti en jafnframt getur hún gefið
vísbendingar um aðlögun íbúa að breyttum umhverfisaðstæðum – ekki bara við
Heklurætur heldur víðs vegar um land þar sem náttúruöflin hafa mótað byggðir