Skógræktarritið - 15.05.2012, Page 99
97SKÓGRÆKTARRITIÐ 2012
alaskasýprus, sem eru skuggþolnar og sá sér inn í
frumherjaskóginn. Þau verða með tímanum drottn-
andi skógartré ásamt sitkagreninu. Í yndisskógrækt
hermir maður eftir þessu ferli og gróðursetur kröfu-
harðari trjátegundir í nýmyndað skógarskjól frum-
herjanna, fjölgar trjátegundunum og örvar ánægju
sína af skógræktarstarfinu.
15. mynd. Kirsuberjatréð
komið á sinn stað. Mynda-
serían var búin til 10. maí
2011 og tréð gróðursett sam-
dægurs. Allt verkið tók tvo
klukkutíma. Það sést vel á
ánægðum garðyrkjumannin-
um að verkið hefur verið á við
ríflega leikfimistund, sem sagt
holl líkamsrækt. Það er góð
vinnuregla að búa til holurnar,
blanda mold og húsdýraáburði
og undirbúa allt vel löngu áður
en á að gróðursetja tréð. Það
er góð tilfinning að geta farið
og keypt sér tré, vitandi að
maður bíður með allt tilbúið
fyrir þau í garðinum eða sum-
arbústaðalandinu.
13. mynd. Svona lítur moldarbeðið út þegar búið er að strá
40 grömmum af alhliða auðleystum áburði í kringum tréð.
Engin áburðarkorn mega liggja upp við börkinn á trénu.
Þau svíða þar líka! Áburðurinn leysist rólega upp og leiðin
niður að rótinni getur tekið mánuð, fer eftir því hvort rign-
ir mikið eða lítið næstu vikur. Fyrir ávaxtatré er góð regla
að strá áburðinum í kringum tréð um mánaðamótin apríl-
maí, svo að næringarefnin séu komin í tréð í byrjun júní.
Blómmyndun fyrir næsta ár er mjög næringarkrefjandi og
hún hefst um mánaðamótin júní-júlí.
14. mynd. Uppbinding á myndinni er alveg í lágmarki og
miðast á þessum stað við að hamla á móti norðaustanátt-
inni, sem er mjög stíf þarna. Betra er að setja hærri staur
og binda tréð við hann á tveimur til þremur stöðum upp
eftir stofninum. Uppbindingarefnið þarf að vera eftirgef-
anlegt eftir því sem tréð gildnar, eða fylgjast verður með og
víkka hringinn utan um stofninn árlega. Uppbinding í þrjú
ár dugar á flestum stöðum. Til að gras og annað illgresi nái
ekki yfirhöndinni í næringarríku moldarbeði er settur eins
fermetra dúkur ofan á. Klippt er rauf upp í hann miðjan,
dúknum smeygt utan um stofn trésins og jaðrar dúksins
keyrðir niður í beðkantinn í kring með stunguskóflu.
Dúkurinn þarf að vera úr gegndræpu efni, sem sleppir í
gegn áburði og vatni. Svo lengi sem dúkurinn er, duga 40
grömm af alhliða áburði árlega. Ef gras á að fá að vaxa
upp að stofni trésins, þarf helmingi meiri áburð. Í tilfelli
ávaxtatrjáa margborgar sig að halda graslausu í kringum
stofninn, því að þau þurfa mikla næringu og sem minnsta
samkeppni frá öðrum gróðri til að geta vaxið nægilega vel
og mikið, myndað blómbrum og gefið af sér aldin.