Morgunblaðið - 23.02.1985, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 23.02.1985, Blaðsíða 28
28 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 23. FEBRÚAR 1985 fHotgpni Útgefandi rtlilíibib hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Aöstoöarritstjóri Björn Bjarnason. Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen. Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aö- alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Kringlan 1, sími 83033. Áskrift- argjald 330 kr. á mánuöi innanlands. (lausasölu 25 kr. eintakiö. Rannsóknir og þróunarstarfsemi Við höfum sem þjóð og ein- staklingar bætt og styrkt stöðu okkar á öllum sviðum. Lífskjör okkar, menntun, heilsugæzla og aðstaða til að sinna persónulegum áhuga- sviðum, svo fátt eitt sé nefnt, eru allt önnur og betri en var fyrir fáum áratugum, að ekki sé farið lengra aftur í þjóðar- sögunni. Hinsvegar hafa þjóðartekjur og lífskjör dregizt saman hin síðari árin, m.a. vegna afla- samdráttar og viðskiptakjara. Okkur hefur ekki tekizt, í harðnandi samkeppni, að halda í við nágrannaþjóðir um lífs- kjör. Aukizt þessi munur enn er stutt í atgervisflótta — héð- an og þangað sem betri kjör bjóðast. Þá er hætt við að þeir hverfi fyrst á brott sem búa að eftirsóttri starfsþekkingu og við megum sízt án vera. Hörður Sigurgestsson, for- stjóri, fjallar um þetta efni í grein í Morgunblaðinu í gær og leggur megináherzlu á nauðsyn og þýðingu rannsókna og þró- unarstarfsemi hér á landi til nýsköpunar atvinnulífsins og aukins hagvaxtar, þ.e. meiri arðsemi í þjóðarbúskapnum í heild. Þar er komið að merg málsins. Við stöndum sem þjóð á tímamótum og verðum að marka atvinnu- og efnahags- stefnu til næstu framtíðar með hliðsjón af viðblasandi stað- reyndum, bæði hérlendis og í heiminum umhverfis okkur. Hörður Sigurgestsson bendir réttilega á að „víða um heim er nýsköpun og umbreyting til nýs atvinnurekstrar á fleygi- ferð. í vaxandi mæli er lögð áherzla á beitingu nýrrar og meiri þekkingar og tækni. Rannsóknir og þróunarstarf verður kjarnaatriði". Ör þróun iðnaðarframleiðslu hefur leitt mannkynið á þrepskjöld upp- lýsingaþjóðfélagsins. Hérlendis hefur verið og er sinnt margvíslegu og merku rannsóknarstarfi á vegum Raunvísindadeildar Háskóla íslands, rannsóknarstofnana atvinnuveganna, Rannsóknar- ráðs ríkisins og einkaaðila. Það er hinsvegar mjög mikilvægt að þessi starfsemi fái byr í segl í formi almennrar athygli og almenns stuðnings. Rannsókn- ar- og þróunarstarf, sem og fræðslukerfið í heild, þarf að laga að þörfum og æskilegri þróun atvinnulifs okkar í fyrir- sjáanlegri framtíð. Aðeins með þeim hætti getum við snúið vörn í sókn og geirneglt ís- lenzka velmegun til framtíðar. Ástæða er til að taka undir ábendingar í grein Harðar Sig- urgestssonar: 1) Að gera rann- sóknarstofnanir sjálfstæðari, virkari og afkastameiri, t.d. með því að gera þær að sjálfs- eignarstofnunum; 2) Áukin áherzla verði lögð á rannsókn- arvinnu á verkefnagrundvelli. Rannsóknarstofnanir taki að sér í vaxandi mæli verkefni fyrir atvinnulífið; 3) Upplýs- ingasteymi milli rannsóknar- stofnana og atvinnufyrirtækja verði aukið. Morgunblaðið leggur á það áherzlu, enn og aftur, að á vettvangi rannsóknar- og þró- unarstarfs er að finna einn mikilvægasta vaxtarbrodd að nýsköpun atvinnulífsins og framtíðarvelmegun lands- manna. Verzlunar- frelsi og hagsmunir neytenda IMorgunblaðinu á miðviku- dag vóru tvær smáfréttir, sem sögðu mikinn sannleika. Önnur var um „verðstríð á bollumarkaði", sem leiddi til lægra vöruverðs, jafnvel svo að stöku framleiðandi var „mjög óhress með, hvað verðið var orðið lágt“. Hin fréttin, sem spannaði stærra svið, fjallaði um frjálsa verðlagningu á raf- magnsvörum, skrifstofuvélum og húsgögnum, — í kjölfar hliðstæðs verzlunarfrelsis á matvörum, hreinlætisvörum og byggingarvörum, sem fyrr var komið til. Þróunin hefur orðið sú, hér sem annars staðar, að frjáls verðlagning, sem helzt í hendur við nauðsynlega samkeppni söluaðila, hefur hvarvetna fært almenningi meira vöruúrval og lægra vöruverð. Hjörleifur Guttormsson, al- þingismaður, hélt því efnislega og réttilega fram í þingræðu, að hörð verzlunarsamkeppni á höfuðborgarsvæðinu færði íbú- um þess aukinn kaupmátt og betri kjör en strjálbýlisfólki, sem byggi máske aðeins að einni kaupfélagsverzlun. Verð- ur hann þó ekki flokkaður sem sérstakur talsmaður frjálsrar verzlunar. Viðreisnarstjórnin 1959— 1971 hjó sem betur fer á marga haftahnúta í atvinnulífi lands- manna, sem leiddi til farsældar og sígandi lukku í þjóðarbú- skapnum á þeim tíma. Nú er smám saman verið að úthýsa verðlagshöftum. Það er síðbúið framhald fyrri skrefa í frjáls- ræðisátt. Betra er seint en aldrei. HtaœMtnáQ Umsjónarmaftur Gísli Jónsson 276. þáttur Nú er gert svolítið hlé á að svara bréfum og í tilbreyt- ingarskyni vikið að því fyrirbæri máls okkar sem við nefnum stíl. Hugtakið stíll hefur verið skil- greint með ýmsum hætti. Segja má að hann sé sá búningur sem hver og einn klæðir mál sitt í, hvort heldur það er talað eða rit- að. Búningur sá getur verið ein- faldur, flókinn, fallegur, ljótur, frumlegur, stældur, íburðarmik- ill eða skrautlaus o.s.frv. Stíll- inn, það er maðurinn (le style, c’est l’homme) var sagt í Frakk- landi. Hallgrímur Pétursson kvað: Oft má af máli þekkja manninn, hver helst hann er. (Ps. 11,15.) Hér á eftir verða tekin nokkur dæmi af mismunandi stíltegund- um og stílbrögðum og reynt að láta þetta eitthvað heita. Gæti það vonandi orðið lesendum til einhvers gamans. ★ Fyrst skal þá nefna sígildan (klassískan) stíl. Málsgreina- skipun er einföld, hann er sagn- sterkur, ríkur af aðalsetningum, en fátt um flúr eða skrúðyrði. Dæmi: „Þetta sumar andaðist Þor- grímur Kjallaksson, en Ver- mundur mjóvi, sonur hans, tók þá við búi í Bjarnarhöfn. Hann var vitur maður og stundar heil- ráður. Styrr hafði þá og búið um hríð undir Hrauni inn frá Bjarn- arhöfn. Hann var vitur maður og harðfengur. Hann átti Þor- björgu, dóttur Þorsteins hregg- nasa. Þorsteinn og Hallur voru synir þeirra. Ásdís hét dóttir þeirra, drengileg kona og heldur skapstór. Styrr var héraðsríkur og hafði fjölmennt mjög. Hann átti sökótt við marga menn, því að hann vó mörg víg, en bætti engin." (Eyrbyggja saga, 18. kafli.) Annað dæmi: „Svo kom sólin fram undan Steinafjallinu, og tindar og röðl- ar og leiti risu skínandi upp úr næturhúminu, en svartir skugg- ar lágu ennþá yfir lautum og giljum. Það var einkennileg sjón. Það var eins og fjallið væri ein- tóm sundurlaus slitur. Eftir nokkurn tíma var öll fjallshlíðin uppljómuð af sól. Lóurnar voru sestar á túnin og hlupu sér stutt- an sprett og sögðu „dýrðin dýrð- in“, námu svo staðar og fóru að skoða heiminn.“ (Þórbergur Þórðarson: Steinarnir tala, 28—29.) Skrúðmikill (florissant) stíll er ríkur af lýsingarorðum og sam- setningum, einnig er þar óvenju- mikið um lýsingarhátt nútíðar af sögnum. Dæmi: „En meður þvi að heimur sjá er mjög brögðóttur og valtur, leiðandi nokkra til fullsælu frá skemmd og öreign, en flettandi suma fjárhlutum, skrýðandi fá- tæktar brigsli, geymir nefndur kaupmaður, sem stundir líða fram, óviturlega sínu góssi, haldandi sig daglega mjög metn- aðarsamlega meður drykk og krásum, gerandi veislur stórar veraldarhöfðingjum með fégjöf- um sæmilegum glutranlega, veitandi vín og vist leikurum og föntum sig loföndum, svo ófor- sjálega að eigi litast hann fyrri um en úti er hinn síðasti pening- ur ... “ (Bergur Sokkason: Nikuláss saga.) Annað dæmi. „Annars er ómögulegt að yrkja að gagni nema — já nema hvað? Nema allir genii, allir lífskraftar, allir englar og allur andskotinn gangi og geysi í manni út og inn — eins og örkin hans Nóa — já, nema skáldið sé eins og örkin gamla, byltandisk og berjandisk í brimróti verald- arflóðsins, umfaðmandisk og innigeymandisk allar skepnur, illar og góðar, hreinar og óhrein- ar, hrafn og dúfu, höggorminn slæga og hundinn trygga, verm- andi og varðveitandi með sömu sympathíu allt gegnum hel og hrun til nýrrar sögu og nýrrar framtíðar." (Matthías Jochumsson: Bréf til Hannesar Hafsteins.) ★ Flækjustfl hafa sumir nefnt þann harðsnúna lærdómsstíl, þar sem málsgreinar verða stundum óheyrilega langar, með alls konar innskotum og mála- lengingum. í þessu voru einna slungnastir sumir forgöngu- menn upplýsingastefnunnar. Dæmi: „Foreldrar hans, þau fyrir svo miklar fyrirtaksgáfur og dyggðir ævinlega elskuðu og víðfrægu hjón, þáverandi vísilögmaður í Norður- og Vestur-lögdæminu, síðan stiftamtmaður yfir ís- landi, ólafur Stephánsson, og hans frú, Sigríður Magnúsdóttir, lögðu snemma alla alúð á, — með ráðum og aðstoð afa Magn- úsar og ömmu, amtmanns Magn- úsar Gíslasonar og hans dyggða- ríku frúar, Þórunnar Guð- mundsdóttur, til þeirra dauða- dags í sambúð við fyrrnefnd börn sín, foreldra hans — að mennta og siða þennan unga svein, eftir því sem hann þrosk- aðist, til á síðan að mega verða, ef forsjóninni svo þóknaðist, öðr- um framar til stoðar og gleði ættar sinnar, um hvað sérlegar námsgáfur, sem skaparinn unnti honum í arf að taka af báðum foreldrum sínum, einkum af móður hans hér dæma fáu, gáfu þeim snemma líklega von, þar svipaðar strax á sveinsins fyrsta ári létu sig í ljósi og óvenjulega bráðgjörvar, hverju til merkis skal telja, eftir frásögnum, bæði foreldra hans, fóstru og margra honum þá samtíða og enn lifandi manna, sem heyrt hafa hina þessu lýsa, að sveinn þessi ekki einungis var altalandi ársgam- all, heldur kunni orðrétt 30 sálmvers, þar á meðal eitt að minnsta kosti langt, nefnilega: „í dag eitt blessað barnið er“, undir hvert hann næsta jóladag eftir, þá honum var lofað í kirkju, og hann brast 2 daga upp á árið, tjáist háróma tekið hafa, þá sungið var í prédikunarstól, sjálfsagt með meira hljómi en lagi, og hljóðað með söfnuðin- um.“ (Magnús Stephensen: Sjálfsævisaga.) Annað dæmi, og ekki eins langt i næsta punkt: „Hitt er víst, að hann (þ.e. óðinn) hefur með sínu póetíska rugli fordjarfað málið, sérdeilis í kveðlingunum, svo hans skáld- skapardrabb og þeirra, sem það hafa í sig drukkið, er öldungis óskiljanlegt, nema þeim einasta, sem það hafa iðkað frá barn- dómi, og veit ég ekkert stúdíum, næst fjölkynngi og öllum for- dæðuskap, verra vera og óþarf- ara, því ég sé enga gagnsemi eð- ur uppbyggingu þar af korna." (Jón Árnason biskup: Bréf frá 1741.) ★ Nú verða stíldæmin ekki fleiri f dag í óbundnu máli, en endað á skopstælingu (paródíu) í bundnu máli. Hún er einnig dæmi um bak-klifun (epífór), og það er hinn skopstældi texti reyndar líka, sjá lok allra braglina. Svo var gömul gáta: Fuglinn flaug fjaðralaus, settist á vegginn beinlaus, þá kom maðurinn handalaus og skaut fuglinn bogalaus. Skopstælingin hljóðar svo: Fuglinn flaug með fjöður á sér, settist á vegginn, á rassinn á sér, þá kom maður með byssu á sér og skaut fuglinn i nefið á sér. Fyrstu ályktanir Búnaðarþings: 150 ára afmæli búnaðarfélags- skaparins Á FIMMTUDAG voru fyrstu álykt- anirnar samþykktar á Búnaðarþingi. Fimm ályktanir voru samþykktar, meðal annars ályktun um að gerðar verði ráðstafanir til að minnst verði á myndarlegan hátt 150 ára afmælis búnaðarfélagsskaparins, er átti upp- haf sitt með stofnun Húss- og bústjórnarfélags Suðuramtsins árið 1837. Bent er á að rituð verði saga tímabilsins, að gengist verði fyrir landbúnaðarsýningu, að gengist verði fyrir gerð útvarps- og/eða sjón- varpsdagskrár og að hlutast verði til um gerð heimildarkvikmyndar. 35 mál hafa nú verið lögð fram á Búnaðarþingi, færri en á sama tíma undanfarin ár. Meðal mála sem lögð voru fram á fimmtudag var erindi stjórnar Búnaðarsam- bands Austurlands um innflutn- ing á smádýrum, sem hentað gætu sem hliðarbúgrein. Nefnd er bjór- tegund að nafni Nútría. Nýting er 1987 verði fólgin í skinninu í pels, tveim rauðum tönnum, sem notaðar eru í skartgripi, svo og kjötið, sem þó mun fremur verðlítið. Þá er bent á andartegund, Carina 2000, sem talin er heppileg, þar sem 80% af fóðri hennar er grængresi, kjötið hvítt og í háu verði erlendis. Þá er og bent á kanínutegund til pels- og kjötframleiðslu. Þau mál sem lögð voru fram á miðvikudag og fimmtudaga eru: Mál nr. 27: Erindi Þorkels Bjarnasonar og fjögurra búnaðar- þingsfulltrúa um sæðingar á hrossum. Mál nr. 28: Erindi Búnaðarsam- bands Austur-Húnavatnssýslu um störf blaðafulltrúa. Mál nr. 29: Erindi Búnaðarsam- bands Austur-Húnavatnssýslu um rannsóknir í þágu landbúnaðar. Mál nr. 30: Erindi Búnaðarsam- bands Austur-Húnavatnssýslu um minnst stefnumörkun gagnvart aðstoð við atvinnuuppbyggingu í sveitum. Mál nr. 31: Erindi Búnaðarsam- bands Kjalarnesþings um umsögn um Frumvarp til laga um breyt- ingu á lögum nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga með síð- ari breytingum, 230. mál 107. löggjafarþings. Mál nr. 32: Erindi Ólafs R. Dýrmundssonar, Erlendur Jó- hannssonar og Árna G. Pétursson- ar um blöndun lyfja í fóður búfjár. Mál nr. 33: Erindi stjórnar Bún- aðarfélags íslands um athugun á því, hvernig virðisaukaskattur komi við bændur. Mál nr. 34: Erindi Sigurðar J. Líndal um nýjan lánaflokk við Stofnlánadeild landbúnaðarins. Mál nr. 35: Erindi stjórnar Bún- aðarsambands Austurlands um innflutning á smádýrum sem hlið- arbúgrein.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.