Skírnir - 01.04.1916, Blaðsíða 5
Skírnir] Útsær. 11T
Mjer er sem jeg skygnist yfir sædjúpsins jarðir —
þar er ekki hljómi líft nje geisla af degi.
En eins og vindar leiða hlíðanna hjarðir
hafbúann straumurinn áttar á sporlausum vegi.
Og ljósgjafaaugu svipast um undirsjáinn.
Þar sækja hafsins múgar sinn óraróður;
og vegast á til bana í lágum legi,
leiknir í fangbrögðum dauðans, varir og harðir.
Þar beita sjer tálkn og barðar á rastanna gróður,
með bítandi tannir og skafia hvassa sem ljáinn.
Til lands sækir djúpsins líf. Þar merkirðu klettinn
og lætur þig sjást sem þú ert, með flakandi slæður.
Aftur og fram, meðan ertu steininum stæður,
sem stormur í kjarri þú æðir í þaranna runni.
Áin sekkur í sjóinn sem dropi í brunni —
en sá, sem ræður, þig stöðvar við norðlenska blettinn.
Þá brýnirðu róminn og kallar af fjöru að fjalli,
en fjötruðu strandirnar bergmála einum munni.
Rjettlausa frelsi í holskaflsins hvolfandi falli,
jeg heyri þig steypa í rústir og lypta frá grunni.
— J-eg minnist þín löngum, heimur hverfulla mynda,
í hópnum, sem kemur og fer í voldugum borgum,
með óma, sem líða í öræfi hverfandi vinda,
með andlit, sem rísa og sökkva á streymandi torgum.
Bylgjur stynja og deyja í fjöldanna flóði.
Þar finnast ei blóðdropar tveir, sem að öllu jafnast.
Og eins er hvert brimtár og andvarp þitt, sem safnast
í öldustríðsins máttuga, drukknandi hljóði.
En einhversstaðar á alt þetta líf að hafnast
og einhver minnisstrengur nær hverju ljóði.