Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1953, Blaðsíða 20
24
Víkingslæk til móts við Svínhaga-Björn. Annars er fyrsta vissa um
býli þar í Oddamáldaga, sem talinn er til 1270, en getur líka verið
mikið eldri.
Fyrsta vitneskja um eiganda Víkingslækjar er sú, að Einar Orms-
son (Loftssonar ríka) á Hvoli í Hvolhreppi gefur í erfðaskrá sinni
1470 jörð þessa (og Háholt í Hreppum) Kristínu dóttur sinni. Hún
var ein af átta systkinum (Fbrs. V. 570).
JörSin hefir átt mikið og gott hraunheiðarland fram eftir öldum,
ásamt flatlendi og slægjum í blettum milli holta og með Rangá. Sést
þó ekki hærra mat á henni en 23% hundraðs árið 1681, og ekki
nema 20 hundruð er hún talin 1696 og allt til 1794, en þá orðin
stórkostlega spillt og lækkuð í 12 hundruð. Hélzt svo 1803, en um
þetta bil var þó verið að yfirgefa býlin, sem lengi voru tvö og lítinn
tíma þrjú. Og loks að öllu yfirgefin byggðin á þessum stað 1812 eins
og nánar verður getið. Jörðin hefir alltaf verið ,,bændaeign“, nema
lítill partur, sem um sinn hefir tekizt að klófesta konungi, sennilega
í sakeyri, minni en svo, að hann bæri kúgildi, aðeins 5 aura í land-
skuld (eða lambá og gemling t.d.). Þannig var þetta 1645.
Landamerki og lýsing. Upp úr aldamótunum 1600 átti Oddur
biskup jörðina. Lætur hann taka vitnisburði um landamerki Víkings-
lækjar, þeir eru 2 frá 1605, og 1 frá 1612, og eru til í afriti í Þskjs.
(A 81, I). Engum þeirra ber að öllu saman, en vegna örnefna og
byrjunar spjalla landsins er vert að taka hér upp lítið ágrip:
1. Vitnisburðinn gefur Jón Jónsson, upp alinn hjá föður sínum,
Jóni Sigurðssyni, er bjó á Víkingslæk. Er hjá honum allt í ruglingi.
Að vestanverðu, á víst að vera, 1. Fífuflag — út í lækinn, en svo
úr Fífluflagi austur í Svínavöll — austur eftir í Hvítamel, en milli
Bolholts í Stóraklif, þúfu í Hrísnesbrúnum og í Hrútshelli. (Hann
er fyrir norðan ána, á Landinu).
2. Vitnisburðinn gefur Halldór Jónsson, sem þar bjó „fjórtán ár
og tuttugu“ (og leigði fyrst af Jóni heitnum Fúsasyni, svo af Helga
syni hans). Mörkin telur hann, úr Ballarholti1 sjónhending í Þúíu,
við lœkinn í Freysteinsholti. En upp eftir úr Ballarholti í Hvítamel,
þaðan í Stóraklif, þúfuna í Hrísbrúnum — í Hrútshelli. Þetta telur
hann tvímælalaus merki. Báðir þessir vitnisburðir eru gefnir 1605. —
Hvorugur nefnir Rangá, sem rennur með landinu endilöngu.
1) Afritari frumritsins mun hafa mislesið fyrsta stafinn. Þar á víst að
vera Vallarholt (sjá hér fyr), hornmark milli Brekkna, Víkingslækjar og
Steinkross. (í gömlum handritum eru margföldu stafirnir V og B oft næsta
líkir).