Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1953, Blaðsíða 43
47
hesthús og settist rólega á hauginn fyrir framan dyrnar, en lét sig
þaðan hvergi hræra.
í landskjálftunum 1912 varð meira að sök, bærinn hrundi, kona
lærbrotnaði í rúmi sínu og barn andaðist, sem hjá henni var. Eftir
það var bærinn fluttur, svo sem 200—300 faðma na. frá fjallinu
og grjóthruninu. Snýr bærinn þar til vesturáttar, eftir halla lands-
lagsins (en snéri áður í norður) og nýtur nú sólar mikið lengur. —
Norðlægi armur fjallsins er þar að baki nokkuð lengra frá en áður,
og ekkert grjótflug að óttast. Tún er grætt þar umhverfis, og aðskilur
lítið annað gamla og nýja túnið en Næfurholtslækur, eins og hann er
kallaður núna, og rennur í lægð þar á milli.
72. Ás. Eftir afstöðu í hringferðinni nefni eg hér As fyrstan af
afbýlum úr Næfurholti (Nýjabæ, Hálsi, Breiðholti, og ennþá síðar
nefndum Hraunteig). Vafalaust er Ás langelzta afbýlið úr heima-
jörðinni, og svo er langt síðan það eyðilagðist, að í upphafi 18. aldar
(1711) er það svo gleymt og glatað, að það er ekki nefnt með öðr-
um eyðibýlum Næfurholts. Um Ás finn ég eigi heldur nokkurn staf
ritaðan, nema þetta eftir Brynjúlf Jónsson (Árbók Fornleifafélagsins
1898, bls. 9): ,,Ás hét hjáleiga frá Næfurholti, er stóð vestan í
Vestur-ás, sem er suður frá Næfurholti, en norður frá Hálsi. Þar er
blásið og sér til gamalla rústa“.
Ekki nefnir Brynjúlfur Jónsson, hvort hann hafi sjálfur séð rústir
þessar. Eftir þessari heimild var ég vondaufur um rökfærslu fyrir
henni. En eftir að ég hóf leit að rústinni 1946 (21. 7. kl. 4 árd.),
styrktist ég í trúnni, með því, er ég skal hér gera ýtarlega grein
fyrir.
Litlu nær nýja en gamla Næfurholti, austan við götuna þar á milli,
er hár og brattur ás, sem Vesturás heitir. Brekkan vestan í ásnum
er þakin þéttu birkikjarri, sem er 2—6 fet á hæð og í góðum vexti,
en uppi er bert og blásið að mestu. Lind kemur undan brekku þess-
ari og er þó gatan milli. Vegna áhlaðs af sandi eru nú moldarbakkar
að lindinni, ekki háir, með grasi á báðar hliðar. Flag eitt lítið er
mjög nærri lindinni að norðanverðu, neðan við götuna ( en ekki
„vestan í ásnum“). I flagi þessu sjást nokkrir dreifðir hleðslusteinar
úr þrenns konar efni: blágrýti og þursagrjót, eins og sést utar og
uppi á ásnum, og líka hraunsteinar, sem þar eru ekki. Þeir hljóta því
að hafa verið fluttir þar að, úr hrauni því, sem þar er drjúgum spöl
neðar. Þetta sýnir því, þótt lítið sé, að þarna hefir einhver bygging
verið að fornu fari. Vestan við flagið er grasbakki, og má vel ætla,
að umfangsmeiri leifar af byggingu dyljist þar undir. Flatlendi mikið