Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Side 13
Róðukrossinn í fannardal
19
allgóðra sauða eða þriggja gemlinga í slakara lagi. 1 verðlagsskrá
S.-Múlasýslu, er gilti frá miðjum maí 1895 til jafnlengdar 1896, er
snemmbær kýr 3—8 vetra verðlögð á kr. 106,86%, áburðarhestur í
fardögum, taminn, 5—12 vetra, á kr. 66,09%, ær, loðin og lembd í
fardögum, á kr. 13,20; ein vætt (40 kg) af saltfiski er verðlögð á
kr. 9,11 (Stjórnartíðindi fyrir ísland 1895, B 1, bls. 47—48).
Einnig má taka til samanburðar verðlag á fiski á þessum tíma. Er
þar til vitnisburðar frásögn í endurminningum Ágústs Guðmunds-
sonar frá Halakoti sem stundaði sjóróðra einmitt á Norðfirði skömmu
fyrir aldamót og lagði inn fisk sinn í verslun Sveins Sigfússonar.
Ágústi farast svo orð:....og svo var fiskurinn verðlítill hjá honum
Sveini kaupmanni, 1% eyrir pundið af flattri ýsu, 2 aurar pundið í
smáfiski og 3 aurar pundið í þorski. En saltið kostaði 4 krónur
tunnan, og við sem söltuðum og þurrkuðum fiskinn fengum 24 krónur
fyrir skippundið af ýsunni, 28 kr. af smáfiski og 32 kr. af þorski
fullverkuðum, og urðum við að taka helminginn af aflanum út í
vörum, en hann lét flytja þær okkur kostnaðarlaust til Reykjavíkur
og við líku verði og matvörur voru þar. Hinn helminginn borgaði
hann í ensku gulli en tók 10 af hundraði afföll af þessu verði. —
Svona var nú verslunin skömmu fyrir aldamótin 1900 hjá honum
Sveini Sigfússyni á Nesi í Norðfirði. 1 önnur hús var ekki að venda.“31
Lauslega áætlað munu þessar 34 krónur, sem Fannardalskrossinn
kostaði, samsvara um það bil 12—15 þúsund krónum (1973).
Sveinn Sigfússon.
Sveinn Sigfússon var á ýmsan hátt merkur tímamótamaður í sögu
Norðfjarðar.32 Hann má kalla upphafsmann verslunar á Nesi. Það
verður að bíða betri tíma að rekja feril hans að fullu eftir skjal-
legum gögnum. Frá gömlum norðfirðingi hef ég það að hann hafi
byrjað að versla á Nesi 1883, ef til vill fyrst á vegum Jóns Magnús-
31 Tímaritið Amma, Reykjavík 1935—1940, (2.-3. hefti II. bindis), bls.
62—63.
32 Um helstu æviatriði Sveins skal vísað til Hver er maðurinn, Reykjavík 1944,
II, bls. 277. Sveinn er fæddur á Nesi í Norðfirði 15. febrúar 1855, sonur
Sigfúsar bónda þar Sveinssonar, en móðir hans var Ólöf Sveinsdóttir frá
Viðfirði, systir Bjarna í Viðfirði, föður dr. Björns og Jóns á Skorrastað,
sem eru meðal helstu heimildarmanna um sögu krossins í Fannardal. Miklar
heimildir um fjárhag og umsýslu Sveins eru í Þjskjs. í skiptaskjölum bæjar-
fógetans í Reykjavík (sýsluskjöl Reykjavíkur XXX, nr. 38).