Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Page 40
46
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
en hér skal hún tekin upp í heild. Ég man ekki betur en dr. Stefán
segði mér einhverju sinni að hann hefði þar einkum farið eftir sögn
Þorbergs Guðmundssonar frá Fannardal, auk þess sem auðfundið er
að hann hefur litið krossinn augum og séð af sínum alkunna lær-
dómi að hann var af gotneskri gerð.
Dr. Stefán kemst svo að orði: „Skammt utan við drög Fannardals
verður allmikil hvilft í norðurfjalli. Hún takmarkast að utan af
Kaffelli (sumir segja Karlfelli) sem gengur suður og austur í dalinn
frá eggjum norðurfjallsins. Hvilftin heitir Þverárdalur og falla tvær
Þverár úr honum í Norðfjarðará. En krókurinn utan og norðan við
Kaffell heitir Gæsadalur (Gæsár- Geysár-). Úr honum fellur í miklu
og djúpu gljúfri Fannardalsá rétt utan við bæ í Fannardal. Fannar-
dals getur í Droplaugarsona sögu, og skal að því vikið síðar. Sagt var
að tröllkona byggi í Kaffelli en önnur í Hólafjalli og kölluðust á:
„Spyrnum saman fjöllunum, systir, því fauskur er rekinn í fjarðar-
kjaft“. Systirin svaraði: „Nei, flýjum heldur“. Fauskurinn var Fann-
ardalskrossinn, gotneskur róðukross (úr franskri skútu?) er rekið
hafði á Krossfjöru en lengi var geymdur í Fannardal til varnar gegn
tröllunum. Hann hangir nú í húsi Guðmundar kaupmanns Sigfús-
sonar í Neskaupstað (Sbr. dr. Björn Bjarnason, Huld V, 69).“
Um þessa frásögn dr. Stefáns þarf ekki að fara mörgum orðum.
Mér er kunnugt um að hann hafði á sínum tíma undir höndum bók-
ina örnefni í Norðfj arðarhreppi.71 Hér má bæta því við að ekki
eru sérlega mörg örnefni í Fannardalslandi sem bera vott um þjóð-
trú. Þó koma þar fyrir örnefnin Tröllkonulæri og Völvuleiði. Þess ber
þó að gæ:ta að víða um land eru til örnefni sem kennd eru við tröll þó
að ekki fari miklum sögum um tröllagang á þeim sömu stöðum.
Áður hefur verið vitnað hér í þessari ritgerð til skrifa Bjarna
Þórðarsonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Neskaupstað, um Fannar-
dalskrossinn. Bjarni er fróðleiksmaður mikill og um eitt skeið birti
hann í blaðinu Austurlandi í Neskaupstað, sem hann hefur lengi
verið ritstjóri að, þætti um örnefni í Neskaupstað. Fjórði þátturinn
í þessum greinaflokki nefndist Krossfjara og gat þá ekki hjá því
farið að Bjarni fjallaði um Fannardalskrossinn. Skal nú rakið hér
það sem Bjarni hafði fram að færa frá sjálfum sér og gömlum
71
Sjá 1. neðanmálsgrein hér að framan. Um afnot dr. Stefáns Einarssonar
af þessari bók hefur tjáð mér Herdís Valgerður Guðjónsdóttir, húsfreyja í
Skuggahlíð.