Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Blaðsíða 50
56
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
skil. Mér er þó nær að halda að á það verði ekki lagður fullnaðar-
dómur nema fyrir liggi gögn um hvemig afhending krossins var
háttað við eigendaskipti á jörðinni og hvort hann var þá reiknaður
til verðs eða ekki. Athuganir á þeim heimildum verða að bíða betri
tíma. Jörðin hefur alltaf verið í bænda eign og er það engan veginn
víst að söluskilmálar liggi á lausu nú orðið, og kynni þá svo að fara
að örðugleikum gæti verið bundið að komast að niðurstöðu um
hvort sala krossins var lögmæt á sínum tíma.83 Hvernig sem á það
kann að verða litið í framtíðinni breytir það vitaskuld engu um
eignarheimild núverandi eiganda að honum, þar sem á hana er
komin þriggja ættliða hefð, enda var ekki við kaupandann að sakast
fyrst krossinn var á annað borð settur á opinbert uppboð.
Sigfús Sigfússon, Bjarni Þórðarson og Stefán Einarsson hallast
allir að því (Stefán þó með efasemdum) að krossinn sé kominn úr
erlendu skipi þar sem hann hafi verið hafður sem verndargripur.
Ég hef hins vegar lengi verið sannfærður um það að krossinn sé
íslenskur að uppruna, enda hef ég lýst þeirri skoðun minni hér að
framan (bls. 29) og á eftir að víkja betur að því atriði.
Fannardalskrossinn og frændur hans.
Lokaorð.
Eins og drepið hefur verið á hér að framan munu róðukrossar
haía tíðkast hér á landi frá upphafi kristninnar. Gera má ráð fyrir,
að í hinum elstu kirkjum hérlendis hafi slíkir krossar verið á altari
eða uppi yfir því, þó að beinar heimildir skorti um búnað þeirra.
Fræðimenn hafa a. m. k. fyrir satt að róðukross hafi allt frá 10.
öld verið talinn nauðsynlegur í altarisbúnaði hverrar kirkju. Stórir
krossar héngu einnig yfir kórbogum hinna stærri kirkna snemma á
öldum. Auk þess sem krossar voru stundum reistir úti á víðavangi,
eins og fyrr er að vikið, notuðu andlegrar stéttar menn þá við helgi-
83 Jón Þorsteinsson bóndi í Skógum í Mjóafirði þinglýsir kaupbréfi fyrir
hálfri jörðunni Fannardal á Alþingi 1744, og er það elsta sala Fannardals
sem mér er kunn (Alþingisbækur Islan'ds, XIII. bindi, bls. 215). Samkvæmt
manntali 1762 eru eigendur Fannardals monsieur Torfi Pálsson (vafalaust
í Stóra-Sandfelli, bóndi og stúdent) og Einar Bjarnason (vafalaust sá sem
þá býr í Fannardal, fimmtugur að aldri). í jarðamatinu 1804 er eigandi
jarðarinnar sagður vera Brynjólfur Bjarnason sem þá býr á jörðinni ásamt
leiguliðanum Marteini Tómassyni. Fannardalur virðist hafa gengið mjög
kaupum og sölum fyrr á tímum.