Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Blaðsíða 63
HRINGARÍKISÚTSKURÐUR FRÁ GAULVERJABÆ
69
farið að fúna; annars er fjölin ófúin og heldur sér mjög vel. Er meira
að segja svo að sjá sem fjölin hafi verið stærri til skamms tíma því
að brotsárin eru ekki gamalleg, en ekki sést hvort þau eru fersk
því að mold hefur litað þau.
Nokkrir naglar og naglaför eru í fjölinni, en erfitt er að segja hvað
af því er tengt upphaflegri notkun fjalarinnar, þ. e. frá sama tíma
og skrautverkið. Nærri neðst gengur gríðarstór rónagli gegnum
fjölina; hausinn stendur nokkuð út úr framhliðinni en sjálfur er
naglinn um 6 sm langur og gengur nokkuð aftur úr fjölinni. Þar
er á endanum stór ferhyrnd ró, um 2,5 X 2,7 sm að stærð, fornleg eins
og naglinn og virðist þetta geta verið upphaflegt í fjölinni og að hún
hafi verið negld við annan hlut. Nokkru fyrir ofan þennan nagla
er einn minni og um 9 sm frá neðri brún eru þrír naglar í röð þversum
yfir fjölina. Þessir síðastnefndu naglar standa nokkuð út úr fram-
hliðinni og eru líklega ekki upphaflegir því að þeir eru í sömu hæð
og skurðverkið og gengur miðnaglinn í gegnum skurðinn á einum
stað. Upp með hægri brún eru þrír naglar í fjölinni og eitt opið
naglagat, annaðhvort síðar til komnir eða þá að naglarnir hafa fest
þessari fjöl við aðra á bakhlið, en þeir hafa allir komið í gegn og
virðast hausarnir vera á framhlið fjalarinnar. 1 efri brún fjalar-
innar, sem virðist vera upphaflegur endi, eru þrír naglar og er föst
á milli þeirra smápjatla úr ullarflóka en varla virðist þetta hafa verið
þar í upphafi. Loks stendur einn nagli aftur úr hægri brún fjalar-
innar neðarlega, nær efst á höggfletinum, og þar eru för eftir að
minnsta kosti þrjá nagla til.
Eins og fyrr segir virðist ekki vanta ofan né neðan á fjölina en
hún hefur verið nokkru breiðari í upphafi. Brotbrúnirnar eru greini-
legar og munstrið gengur út fyrir brúnirnar en hversu langt það
hefur náð er ógerningur að segja. Hægra megin virðist ekki vanta
afarmikið á fjölina því að bæði er að brúnin að ofan sveigist það
mikið niður, að með sömu beygju hefur boginn senn komið í lóðrétta
brún, og einnig virðast allir stofnar, sem ganga út úr fjölinni þeim
megin, koma fljótt inn í hana aftur. Vinstra megin vantar líklega
nokkru meira á fjölina eða þá að önnur fjöl hefur verið þar og
munstrið náð út á hana.
Það virðist greinilegt við fyrstu sýn að þessi fjöl er ekki úr þiljum
á húsi og líklega ekki eiginlegur húsaviður eins og allir aðrir slíkir
fornir viðir sem þekktir eru hérlendis. Fjalirnar frá Möðrufelli,
Bjarnastaðahlíð, Flatatungu og Hólum, svo að nefndar séu hinar