Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Page 70
76
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Risturnar hafa verið gerðar í fjórar afmarkaðar klappir eða steina.
Af meðfylgjandi rissmynd má sjá afstöðu þessara fjögurra steina
en rétt er að geta þess jafnframt að klappir eru þarna fleiri þótt
marklausar séu. Þó verða risturnar ekki greindar nú til gagns nema
á þremur steinanna. Syðsta klöppin er nú ólæsileg og hraklega út-
ötuð í steinsteypu eftir stríðsumsvif breta í heimsstyrj'öldinni síðustu.
Allt í kringum steinana eru steinsteypt byrgi og byssustæði frá
þeim tíma.2 Steypan í þessi mannvirki hefur verið blönduð og hrærð
á klöppinni syðstu; þó má enn greina einstöku höggna rák út undan
steypuhúðinni. Bergristurnar eru á fornminjaskrá og því friðaðar
forminjar.
2. Um fyrri rannsóknir Hvaleyrarrista.
Margir hafa ritað um og rannsakað Hvaleyrarristurnar og mun
þess nú getið að nokkru.
Jónas Hallgrímsson skáld mun líklega fyrstur manna hafa rann-
sakað steinana fornfræðilega í júní 1841. Frásögn Jónasar einkenn-
ist af sannri gleði uppgötvarans og kveðst hann hafa fundið „paa en
af disse Blokke, den regelmæssigste og smukkeste, flere gamle Runer“,
í skýrslu sinni til Finns Magnússonar.
Þegar Jónas frétti fyrst af ristum þessum fór tvennum sögum af
þeim; sögðu sumir þarna vera rúnir en sumir farmannanöfn. Taldi
Jónas farmannanöfnin höggvin með latínustöfum ofan í rúnateiknin
á steininum með flestar risturnar. Slær hann þeirri hugdettu fram,
þó með nokkrum hálfkæringi, að Hrafna-Flóki og skipshöfn hans
hafi rist nöfn sín rúnaletri á steininn.3
Jónas virðist einkum hafa gert sér grillur út af þremur atriðum,
öllum vandmeðförnum og villandi, þegar hann slær þessu fram. 1
fyrsta lagi Skarðsárbókartexti Landnámu; Björn á Skarðsá hefur
tekið Hauksbókartexta upp í Landnámugerð sína en ekki Sturlu-
bókartexta; í Sturlubók Landnámabókar er Hvaleyrar eða Hafnar-
2 Á dögum Jónasar Hallgrímssonar hefur staðurinn verið „paa den nord-
vestlige Ende af det lioje og smukke Hvaleyrartún", Rit eftir Jónas Hall-
grímsson III (1933) bls. 144. í lýsingu Sigurðar Skúlasonar á steinunum
segir hann þá „standa upp úr nýræktinni á höfðanum (í Vesturkotslandi).“
Sigurður Skúlason (1933) bls. 27.
3 Rit eftir Jónas Hallgrímsson III (1933) bls. 144—5 og bls. 167—8 og at-
hugasemdir Matthíasar Þórðarsonar á bls. 295. Rit eftir Jónas Hallgríms-
son II (1932) bls. 80, 82: „Flókasteinninn minn, eður hvað ég á að kalla
hann“ og 108.