Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Page 80
86
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Sigurður minnist á tvo fyrri rannsakendur, þá Jónas Hallgrímsson
og Áma Helgason. Telur Sigurður réttilega tilgátur Jónasar um aldur
og uppruna markanna á hæsta steininum mjög fjarri sanni. Þó hafi
Jónas haft rétt fyrir sér í því að rúnateiknin séu eldri en bókstaf-
irnir og ártölin á steininum. Fremur er Sigurði í nöp við notkun Árna
Helgasonar á orðinu „nöfn“ um fangamörk á steininum.21 Rétt er
í því sambandi að minnast þess að fangamörk voru áður fyrr notuð
í stað nafnsundirskriftar, ekki síst af lítt læsum eða pennavönum
mönnum, svo að orðalag séra Árna þarf ekki að vera mjög undar-
legt. Þá telur Sigurður það ,,vafalaust“ að útlendingar, sjómenn og
kaupsýslumenn, hafi gert sumar risturnar, en ekkert sé því til fyrir-
stöðu að íslendingar hafi gert einhverjar þeirra.22 Er þó sönnu nær
að ekkert er vafalaust í þessu efni. Loks álítur Sigurður rétt að
tímasetja ristumar til 17. og 18. aldar og ef til vill til 16. aldar.
Anders Bæksted ritar um Hvaleyrarristur í verk sitt um íslenskar
rúnaristur. Fremur lítið er á lýsingu hans að græða þótt ágæt rita-
skrá fylgi. Telur hann risturnar vera frá 17. og 18. öld.23
Með Jónasi Hallgrímssyni hefjast rannsóknir Hvaleyrarrista árið
1841. Áhuginn er þá einkum bundinn við teikn lík rúnum, að öðrum
ristum er lítt hugað. Blendingur sagna úr samtíðinni, heit þjóðernis-
rómantísk trú á fornritin ásamt frjóu ímyndunarafli móta einkum
viðhorfin fram eftir 19. öldinni. Með Kálund á síðari hluta aldar-
innar er ártölunum á steinunum loks veitt nokkur athygli og striki
slegið yfir fyrri grillur um risturnar. Þegar Sigurður Skúlason ritar
lýsingu sína á Hvaleyrarsteinum beinist öll athyglin að ártölum rist-
anna, að öðrum ristum er lítt hugað. Sigurður álítur risturnar eink-
um frá 17. og 18. öld sem og Bæksted sem minnist á risturnar í riti
útgefnu 1942.
3. Um íslensk mörk og fangamörk og menningarsögulegt gildi
Hvaleyrarrista.
Af rannsóknarsögu varð ljóst að menn hafa nokkuð einhliða at-
hugað tvenns konar teikn á Hvaleyrarsteininum. Teikn steinanna
má vissulega greina í ártöl og teikn lík rúnum (varla umsvifalaust
„bandrúnir") og önnur teikn og skraut. En algjör aðgreining ártala
og marka verður rannsakendum að fótakefli þegar til túlkunar kemur.
21 Sigurður Skúlason (1933) bls. 28.
22 Sigurður Skúlason (1933) bls. 29.
23 Anders Bæksted (1942) bls. 21 og bls. 80—81.