Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Síða 115
ÖNDVEGISSÚLUR í EYJAFIRÐI
121
í búri, útskurð í þekju eða jafnvel turn í kamarsstað. Ekki er heldur
að undra þótt svo hafi verið í jafn-timbursnauðu landi; hvert tangur
og tetur úr timbri var notað. Ófáir eru þeir byggingarreikningar
kirkna sem enda á því að tíunda hvaðeina úr hinni eldri kirkju, sem
ýmist var notað í hina nýju eða selt. Við getum hæglega sett okkur
það fyrir hugskotssjónir hvernig bændur í Öngulsstaða- og Hrafna-
gilshreppum flykkjast að Munkaþverá, Möðruvöllum eða Hrafna-
gili þessi árin. Þeir gætu allt eins verið komnir lengra að. Hver veit?
Þá vantar efni í nýja baðstofu, skála, skemmu, fjós eða jafnvel fjár-
hús. Einum þeirra eða fleiri hafa verið slegnir innstöplarnir ásamt
öðru dóti. Ef til vill hafa þessir bændur verið gæddir fornleifaáhuga.
Þegar heim kom gátu þeir ekki fengið af sér að fletta svo merkilegum
trjám í lauptré eða skáldrafta. í stað þess hafa þeir sett hina fornu
stöpla upp með bæjardyrum heima, til prýðis. Sjálfsagt hafa þessi
tré, þótt væn hafi verið, enst illa úti við í misjöfnum veðrum. Mönn-
um hefur sýnst það miður að missa af slíku húsaskrauti og því endur-
nýjað það. Annaðhvort hafa húsbændur sjálfir gert það eða fengið
haga menn til. Að lokum hefur fyrnst yfir upprunann og þjóðtrúin
tekið við, annað eins hefur gleymst á rúmum mannsaldri. Og þó.
Vel gat verið að þjóðsagan um ,,öndvegissúlurnar“ væri enn eldri.
Hugsanlegt er að hún hafi þegar verið á kreiki og leikið um stöplana,
þar sem þeir stóðu í kirkjunum sjálfum. Hvað átti fólk að halda um
slík þurshöfuð í hinu helga húsi ?
IX
En auðvitað gat það verið fleira en innstöplarnir sem forvitni
gat vakið. Kem ég þá aftur að vindreimum séra Einars í Saurbæ
og teikningu Sigurðar Guðmundssonar. Má ég biðja menn í því til-
efni hlýða aftur á orð biskupa við vísitasíugerðir ? Níu árum áður en
Jón Vigfússon ritar þau orð, er hér að framan er vitnað til, er Gísli
biskup Þorláksson að lýsa ástandi Möðruvallakirkj u í Eyjafirði.
Hann tekur fyrst fyrir miðkirkjuna, drepur á forkirkju, þessu næst
kór og endar á því að tína til inventarium: „Altari með snúnum
stöfum og renndum hnöppum ofaná.“35 Hvaða stafir eru nú þetta?
I skoðunargerðum dómkirknanna á Hólum og í Skálholti kemur
greinilega í ljós að fram af ölturum eru reistir stólpai’ eða stafir. Frá
þessum stöfum ganga járnteinar að ofanverðu inn á kórvegg. Á tein-
unum héngu tjöld, altaristjöld, sem dregin hafa verið allt fram að
stöfum. Það þarf reyndar ekki að vísa til fomra skoðunargerða,