Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Blaðsíða 124
130
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
öllu betri, jafnvel þótt Klaustur heiti leitarmannabyrgi í hraun-
sprungu á Mývatnsöræfum. Sú nafngift gæti sem hægast átt sér
sömu skýringu og Margeir varpaði fram um Hraunþúfuklaustur,
en væri þó áþreifanlegri: í hraunsprungunni þar eystra sátu menn
í steini og hafa því af gamansemi kallað hana Klaustur, af því sagt
var um klausturbúa að þeir sætu í steini, þ. e. helgum steini.
Hafi nú hinn þröngi fjallasalur í Vesturdal öndverðlega heitið
fullu nafni Hraunþúfuklaustur, eins og mér þykir langsennilegast,
þ. e. verið kenndur við Hraunþúfuna líkt og áin, múlinn og gilið
(Hraunþúfuklaustur, Hraunþúfuá, Hraunþúfumúli, Hraunþúfugil),
hvers vegna hnikaðist þá nafnið um set og tók einvörðungu að vísa
til bæjarstæðisins forna við Hraunþúfuá (ég leyfi mér að gera ráð
fyrir bæ þar) ? Skýringin sýnist einföld: menn sem fóru í Hraun-
þúfuklaustur ýmist vegna selstöðu sem þar má hafa verið eða til
næturgistingar í göngum, hafa jafnan átt við bæjarstæðið þegar
þeir tóku sér nafnið í munn, það sölsaði þannig undir sig hægt og
hægt Hraunþúfuklausturs-nafnið, en hin eldri tilvísun dofnaði að
sama skapi unz hún hvarf að fullu. Orðalag Vesturdæla á seinni
tímum, „fram að Klaustrum", sýnir að átt er við bæjarstæðið forna
og það eitt; ekki væri notuð forsetningin að, ef meint væri að fara í
dalkverkina (þ. e. klaustrið skv. skýringu M. J.). Vesturdælir segja
einnig „fram á Klaustur" sem merkir hið sama og fram aö Klaustr-
um.
Bærinn við Hraunþúfuá gæti í fyrndinni hafa heitið Hraunþúfu-
klaustur, verið samnefndur dalkverkinni; þó þykir mér miklu trú-
legra að hann hafi heitið eitthvað allt annað, en skipt um nafn:
heitið á dalsplássinu færzt yfir á hann.
Skýrt dæmi um nafnhnikun af þeim toga sem nú var getið, en í
stækkaðri mynd, liggur á lausu í Skagafjarðardölum: að fornu hétu
Svartárdalur og Vesturdalur (vafi um Austurdal) einu nafni Goð-
dalir. Það byggðarheiti er fyrir löngu úr gildi gengið og lifir aðeins
á bókum og í nafni kirkjustaðarins Goðdala í Vesturdal. Sá bær
kann að hafa verið samnefndur byggðarlaginu í fyrstu, en þó er það
næsta ótrúlegt, slíkum ruglingi sem það hlaut að valda. Eðlilegast er
að hugsa sér, að hægt og sígandi hafi byggðarheitið tekið að hverfast
um þennan tiltekna stað — sem við það glataði upprunalegu nafni
sínu — og horfið þá af stöðvunum í kring. Kirkjusetrið (þar var
höfuðkirkja) varð með tímanum miðstaður Goðdala hinna fornu og
dró því að sér mesta mannaferð og umræðu.